Stöngin inn ! – Vönduð og skemmtileg sýning á Breiðumýri

0
738

Sýningar Leikdeildar Eflingar á gamansöngleiknum “Stöngin inn!” eftir Guðmund Ólafsson, standa nú yfir í félagsheimlinu á Breiðumýri í Reykjadal. Verkið sem er gamansöngleikur með ABBA-tónlist gerist í litlu sjávarþorpi þar sem konur bæjarins ákveða að setja eiginmenn sína í kynlífsbann nema þeir hætti að horfa á enska boltann og það hefur ýmsar afleiðingar í för með sér.

Guðríður (Elín Kjartansdóttir) og Gissur (Jón Friðrik Benónýsson) fremst. Lísa (Erla Ingileif Harðardóttir ) og Kjartan (Daníel Þór Samúelsson) fjær. Hreinn sveinn (Eyþór Kári Ingólfsson) tv.

Í sýningunni eru 18 leikarar auk fimm manna hljómsveitar sem skipuð er þaulvönum tónlistarmönnum. Að venju er leikarahópurinn blanda af ungum og öldnum, reyndum og óreyndum og eins og oft áður taka nokkrir nemendur Framhaldsskólans á Laugum þátt í sýningunni. Leikstjóri sýningarinnar er Vala Fannell og tónlistarstjóri er Jaan Alavere.

Segja má að ekkert aðalhlutverk sé í sýningunni, en nokkuð mörg burðarhlutverk, sem falla flest í hlut reyndari leikarara hjá leikdeildinni. Óreyndir og minna vanir leikarar standa sig mjög vel í sínum hlutverkum og eru leikdeildinni til sóma. Sýningin er vönduð og skemmtileg og tekst leikstjóranum að ná því besta fram úr öllum leikurunum, vönum sem óvönum.

Tíðindamaður 641.is hafði mest gaman af túlkun Harðar Þórs Benónýssonar á Stanislaw frá Austur-Evrópu sem var ekki orðinn alveg nógu góður í íslensku og var sjónvarpsviðtalið við Stanislaw, mjög skemmtilegt.

Þó sviðið sé ekki stórt á Breiðumýri er það nýtt vel og amk. sex sviðsmyndum komið fyrir á því. Hljómsveitin er höfð á miðju sviði bakatil sem er vel til fundið. Það gerir það að verkum að söngurinn skilar sér betur til áhorfenda en áður.

641.is mælir með sýningunni og skorar á alla sem langar að eiga góða kvöldstund í leikhúsi að bregða sér á sýningu Leikdeildar Eflingar á Stöngin inn! á Breiðumýri.

Miðapantanir eru í síma 618-3945 eða á leikdeild@leikdeild.is

Næstu sýningar:

Föstudagur 9. mars kl. 20:30
Laugardagur 10. mars kl. 18:00
Sunnudagur 11. mars kl. 16:00

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem teknar voru á sýningunni í fyrrakvöld.

Kynlífsbanni komið á
Sjónvarpsviðtalið við Stansilaw var bráðfyndið.
Mikil átök kynjanna undir lok sýningarinnar