Steingrímur segir mikinn missir að Birni Val fyrir kjördæmið

0
68

„Það er mikil missir að Birni Val úr sveit okkar Vinstri-grænna í Norðausturkjördæmi,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ráðherra og oddviti í NA-kjördæmi í samtali við Akureyri vikublað.

Steingrímur J Sigfússon

Steingrímur kynnti í dag þá ákvörðun sína að fara enn eitt kjörtímabilið fram og gefa kost á sér í 1. sætið fyrir norðan. Í gær kom hins vegar fram að Björn Valur Gíslason, sem nú situr á þingi fyrir VG í Norðausturkjördæmi, fer fram í Reykjavík. Samkvæmt heimildum Akureyrar vikublaðs vissi Steingrímur aðeins nýverið af þessum áformum Björns Vals en hann mun vegna kynjareglu ekki raðast ofar en í 3ja sætið í Norðausturkjördæmi sem er óvíst þingsæti, að því gefnu að Steingrímur fái umboð til að leiða listann.

 

„Björn Valur er gríðarlega vinnusamur, dugandi og kjarkmikill baráttumaður og það mun hann áfram reynast hvar sem hann leggur hönd á plóg. Það er því að sjálfsögðu fagnaðarefni að hann býður áfram fram krafta sína þó annars staðar sé. Þetta er hans ákvörðun og að sjálfsögðu virðum við hana, rétt eins og við virðum ákvörðun Þuríðar Backman um að draga sig nú í hlé eftir langan og farsælan þingmennskuferil. Mestu skiptir að lokum að við stillum upp sterkri liðsheild á landsvísu og allt stefnir í þá átt, með góðri blöndu af reynslumiklu fólki og endurnýjun,“ segir Steingrímur.