Stefnumál Framtíðarlistans – Framboðsfundur á Breiðumýri 21. maí kl 20:30

0
1283

Framtíðarlistinn – Ð, hefur kynnt stefnumál sín fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Þingeyjarsveit. Af þessu tilefni boðar Framtíðarlistinn til framboðsfundur vegna sveitarstjórnarkosninga í Þingeyjarsveit 2018 og verður hann haldinn mánudaginn 21. maí kl. 20:30 (annan í hvítasunnu) í Félagsheimilinu á Breiðumýri, að því er segir í tilkynningu frá Framtíðarlistanum.

Í tilkynningunni segir einnig að á fundinum munu frambjóðendur kynna sig og málefnin. Fundurinn verður í útsendingu á Facebook síðu framboðsins, þar sem áhorfendur geta borið fram spurningar til frambjóðenda www.facebook.com/xframtid

Stefnumál Framtíðarlistans má skoða hér fyrir neðan.

 

FRAMTÍÐIN -Fyrir okkur öll-

Framtíðin er hópur einstaklinga sem telur mögulegt að auka lífsgæði í Þingeyjarsveit.

Við ákvarðanatöku í öllum stærri málum munum við leitast við að horfa á framtíðarhag sveitarfélagsins sem heildar.

Við munum verða hreinskiptin í samskiptum við íbúa og eigum okkur það markmið að verða kennd við jákvæðni og opna stjórnsýslu, bætt upplýsingaflæði og góða stjórnunarhætti.

Fái Framtíðin meirihluta atkvæða í komandi kosningum munum við bjóða A-lista stöðu varaoddvita og formennsku í nefndum í hlutfalli við atkvæðamagn.

Umhverfis- og skipulagsmál

Framtíðin leggur áherslu á að móta öfluga umhverfisstefnu með áherslu á náttúruvernd og að kortleggja náttúrugæði í Þingeyjarsveit. Við teljum mikilvægt að leyfa náttúrunni að njóta vafans.

Nýtt aðalskipulag verður í samræmi við umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

Þingeyjarsveit móti sér jafnframt ábyrga loftslagsstefnu og stefni á minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Við styðjum að þeir virkjunarkostir í Skjálfandafljóti sem voru áður í biðflokki í 3. áfanga Rammaáætlunar, áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, verði settir í verndarflokk.

Ekki verði gefið út framkvæmdaleyfi vegna Svartárvirkjunar að óbreyttu. Við ætlum okkur að vinna metnaðarfulla umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið og ákvarðanir í virkjanamálum verða teknar með hliðsjón af henni. Sé talin þörf á að virkja vatnsföll í sveitarfélaginu er eðlileg krafa að veruleg hlutdeild væntanlegs arðs af virkjunum renni til nærsamfélagsins.

Húsnæðismál

Þingeyjarsveit er aðlaðandi til búsetu. Við teljum að aukið  framboð á húsnæði geti snúið við þeirri þróun að íbúum á svæðinu hefur fækkað um fimmtung frá því fyrir aldamót.

Síðustu tvö kjörtímabil hefur verið viðvarandi húsnæðisskortur á ákveðnum svæðum í Þingeyjarsveit án þess að sveitarstjórn hafi brugðist við því á nokkurn hátt svo séð verði.

Framtíðin ætlar á næsta kjörtímabili að leggja verulega fjármuni í að byggja íbúðir. Við ætlum að stofna leigufélag sem verður ekki rekið með arðsemisjónarmiði. Það byggir íbúðir og leigir þær út á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er.

Með því að hægja á niðurgreiðslu skulda á að vera hægt að fjármagna verkefnið án þess að það komi niður á öðrum rekstri sveitarfélagsins.

Fræðslumál

Rekstur skóla er langviðamesta verkefni sveitarfélagsins og hvernig að þeim rekstri er staðið getur skipt sköpum um hvort ungt fólk sest að í sveitarfélaginu. Framtíðin telur rétt að reka skóla sveitarfélagsins áfram á næsta kjörtímabili með þeim hætti sem nú er gert og tryggja þar með stöðugleika í starfi skólanna.

Við teljum einnig að efla þurfi samskipti barna og ungmenna á svæðinu s.s. með auknum félagslegum samskiptum milli skólanna, í gegnum félagsmiðstöðvarnar en einnig í gegnum íþróttastarf og tónlistarnám. Á Laugum er góð aðstaða til íþróttaiðkunar sem mætti nýta mun betur öllum til hagsbóta.

Framtíðin mun leggja áherslu á að bjóða áfram upp á fæði í leik- og grunnskólum Þingeyjarsveitar ásamt námsgögnum fyrir grunnskólanemendur, án endurgjalds.

Við ætlum að standa vörð um það metnaðarfulla og góða starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins. Stefnt verður að því að aðlaga opnunartíma þessara þriggja leikskóla að þörfum þeirra sem þá nota og fækka þeim vikum sem leikskólar eru lokaðir yfir sumartímann.

Málefni eldri borgara

Öldungaráð að fyrirmynd ungmennaráðs verði stofnað og er það hugsað til að vera sveitarstjórn til rágjafar um málefni eldri borgara.

Við munum endurskoða gjaldskrár heimaþjónustu og fasteignagjalda svo að afslættir taki betur mið af framfærsluviðmiðum.

Sorpmál

Núverandi fyrirkomulag á sorphirðu er þróunarverkefni sem þarf að þróa áfram í samráði við íbúa. Kanna þarf þörf  á öðrum gámavelli og/eða grenndargámum. Tilfellið er að vegna fjarlægða fer hluti íbúa sveitarfélagsins frekar með sitt sorp til Húsavíkur og greiðir fyrir það. Það er þó mat okkar að miklar framfarir hafi orðið í sorphirðu þegar flokkun sorps hófst og mikilvægt er að allt sorp sé flokkað, þar með talið lífrænt sorp.

Meðal verkefna sem Framtíðin telur mikilvægt að fara í er skipulögð eyðing kerfils með markvissum hætti. Nauðsynlegt er að sveitarfélagið taki frumkvæði í þessu máli.

Brunavarnir

Framtíðin vill stuðla að víðtækri sátt um brunavarnir í Þingeyjarsveit.

Augljóslega munu brunavarnir í sveitarfélaginu verða reknar fyrst og fremst með öryggi íbúa og hagkvæmni í rekstri að leiðarljósi. Við ætlum að halda íbúafundi með sveitarstjórn og slökkviliðsstjóra um brunavarnir í sveitarfélaginu og teljum okkur geta leitt til lykta þau ágreiningsmál sem uppi hafa verið í þessum málaflokki.

Félagsheimili

Þrjú félagsheimili eru nú eftir í sveitarfélaginu, Framtíðin vill efla þau og byggja upp starfssemi í þeim. Ásýnd þeirra hefur verið verulega ábótavant og mikilvægt að það verði bætt.