Spellvirki unnin í íþróttahúsinu á Laugum

0
109

Spellvirki voru unnin í íþróttahúsinu á Laugum í gærkvöld. Gestir á tjaldsvæðinu við íþróttavöllinn sáu tvo skuggalega náunga hlaupa burt frá íþróttahúsinu um kl 21:00 í gærkvöld og voru þeir með eitthvað á höfðinu, líklega lambhúshettur. Var lögreglan á Húsavík látin vita og eftir ummerkjum á staðnum lítur út fyrir að spellvirkjarnir hafa falið sig inni í húsinu þegar sundlaugarverðirnir læstu í fyrr um kvöldið.

Íþróttahúsið og sundlaugin á Laugum
Íþróttahúsið og sundlaugin á Laugum

Höfðu þeir sparkað upp hurð að móttökunni en þar inni er sjóðsvél. Ekki tókst þeim að brjóta upp sjóðsvélina og ekki lítur út fyrir að þeir hafi stolið neinu, ekki einu sinni einni kókflösku úr kæli sem þar stendur inni. Nokkrar skemmdir eru þó á hurðinni og kamrinum og greinilegt fótspor er á hurðinni. Þeir hlupu svo út um aðalinnganginn.

Spellvirkjarnir eru taldir vera á aldrinum 15-20 ára og höfðu líklega ekkert upp úr krafsinu.

Lögreglan á Húsavík fer með rannsókn málsins og ef einhver telur sig geta gefið upplýsingar um málið er viðkomandi hvattur til að hafa samband.