Sparisjóður Suður-Þingeyinga hagnaðist um 8 milljónir króna

0
330

Sparisjóður Suður-Þingeyinga hélt aðalfund sinn í Brekku í Aðaldal 20. apríl sl. Fram kom á fundinum að hagnaður ársins 2014 eftir skatta nam rúmum 8 miljónum og var eigið fé í árslok 434 milljónir. Virðisrýrnun útlána skýrir að mestu lakari afkomu en árið áður þegar sjóðurinn skilaði rúmlega 35 milljón króna hagnaði eftir skatta. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er  12,41%. Fjármálaeftirlitið hefur metið eiginfjárþörf sparisjóðsins 12,17%.

Sparisj. S-Þing LOGO

Stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga var endurkjörin og hana skipa Ari Teitsson, Baldur Daníelsson, Dagbjört Jónsdóttir, Reinhard Reynisson og Þórhallur Hermannsson. Sparisjóðsstjóri er Anna Karen Arnarsdóttir. Sparisjóðurinn starfrækir þrjár afgreiðslur, í Reykjahlíð, á Laugum og á Húsavík.

Sparisjóðurinn hefur jafnan stutt mikilvæg verkefni í héraði eftir aðstæðum hverju sinni. Á aðalfundinum var verkefninu „Uppbygging við Goðafoss“ veittur 500.000 kr. styrkur.  Sömuleiðis var kvikmyndinni Hrútar veittur 500.000 kr. styrkur, en sú mynd er tekin upp í Bárðardal og einnig koma heimamenn töluvert við sögu sem leikarar í myndinni.

Stjórnarformaður, Ari Teitsson, fór yfir stöðu sjóðsins auk þess sem nýlegar fréttir af öðrum sparisjóðum þ.m.t. Sparisjóði Vestmannaeyja voru til umræðu.

Sérstaða sparisjóðanna er að hafa mikilvægt hlutverk sem bakhjarl mannlífs og atvinnulífs á minni stöðum á landsbyggðinni. Starfsemi sparisjóða er staðbundin og nálægð við viðskiptavini oft meiri en tíðkast meðal annarra fjármálafyrirtækja auk þess sem mál eru afgreidd heima í héraði af heimafólki sem þekkir til aðstæðna. Sparisjóðirnir hafa verið reknir til að tryggja hefðbundna og eðlilega fjármálaþjónustu á starfssvæði sínu en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur.

Fram kom í ræðu formanns að sparisjóðirnir stefndu að aukinni samvinnu á fleiri sviðum en verið hefur. Ekki var sóst eftir umboði til viðræðna um sameiningu við aðra sparisjóði, enda hafa nýlegar sameiningar ekki gefið tilefni til slíks. Formaður taldi að bjart væri um atvinnuuppbyggingu í héraði og væri þar sóknarfæri fyrir sparisjóðinn.

Í starfskjarastefnu sjóðsins sem samþykkt var kemur fram að engin árangurstengd laun verði greidd, sem er í samræmi við eðli starfsemi hans og stefnu um litla áhættusækni. Fréttatilkynning.