Sorg

0
208

Við ókum burt frá gröfinni, enginn sagði neitt
og undarleg var gangan heim í hlaðið,
því fjallið hans og bærinn og allt var orðið breytt,
þó auðnin væri mest, þar sem kistan hafði staðið.

Bolli Pétur Bollason
Bolli Pétur Bollason.

Þó ennþá blöktu í stjökunum örfá kertaljós,
var alstaðar í húsinu döpur rökkurmóða.
Á miðju stofugólfi lá föl og fannhvít rós,
sem fallið hafði af kistu drengsins góða.

Ég laut þar yfir rósina, svo enginn annar sá,
að öllum sóttu lífsins þungu gátur.
Svo kyrrt var þarna inni, að klukkan hætti að slá,
en klökkvans þögn er innibyrgður grátur.

Í silfurvasa lét ég mína sumarbjörtu rós,
en samt var henni þrotið líf og styrkur.
Svo brunnu þau að stjökum hin bleiku kertaljós,
og blómið hvarf mér, inn í þögn og myrkur.

Það er nú með skáldið frá Fagraskógi að það hefur einstakt lag á að orða hlutina. Þarna fjallar Davíð Stefánsson um sorgina, sem hefur jú verið viðfangsefnið undanfarna daga í kyrruviku. Það er merkilegt með sorgina hvað hún getur verið kvalarfull, dimm og hljóð. Davíð nær alveg að fanga þá stemmningu í þessu ljóði sínu er ber yfirskriftina Sorg.
Þá er líka eins og tíminn nemi staðar þegar sorgin knýr dyra og engin tilviljun í því sambandi að hinn stóri dimmi sorgardagur kristninnar sé sagður langur þ.e. föstudagurinn langi. Sorgin lamar og hvert einasta skref sem tekið er í henni verður stærra og áreynslumeira en annars.
Það er líka þetta með sorgina að hún verður til þess að við kynnumst sjálfum okkur upp á nýtt, við verðum ekki söm á eftir. Nýjar tilfinningar koma upp sem við höfum ekki verið að velta fyrir okkur og kannski ekki fundið eins skýrt fyrir áður. Breyting á persónuleika okkar veltur síðan á því hvernig við tökumst á við þessar nýju tilfinningar og vinnum úr þeim, hvort við göngumst við þeim eða reynum að flýja þær, þar er velferð okkar í húfi.
Og hvað svo með hið breytta svið, hvernig fyllum við upp í tómarúmið, „því fjallið hans og bærinn og allt var orðið breytt,“ það er langt frá því að vera auðvelt? Á einu augabragði hefur okkur verið varpað inn í veruleika sem við eigum engin ráð við, veruleiki sem veldur okkur ótta og við erum fullkomlega vanmáttug gagnvart.
Okkur finnst við í raun ekki hafa neitt fram að færa nema eigin nálægð án orða, vegna þess að sorg er aldrei að fullu tjáð með orðum frekar en að henni sé svarað að fullu með orðum. Það er engin ein leið til sem er rétt að fara þegar við horfum fram á atburði sem kollvarpa tilvist okkar og viðhorfum til lífsins, það eru ekki til fyrirfram ákvörðuð rétt viðbrögð eða eitt rétt sorgarferli. Við bregðumst við á ólíkan hátt og syrgjum á ólíkan hátt, af því að sem manneskjur erum við jafn ólík og við erum mörg.
Þó er að alltaf nauðsynlegt á einhverjum tímapunkti að finna sorginni farveg út, annað hvort með athöfnum eða orðum, vegna þess að ef svo er ekki gert, getur það haft ófyrirsjánlegan skaða á þau sem syrgja þegar til framtíðar er litið.
Þegar við staðnæmumst við krossinn á föstudaginn langa, verðum við vitni að djúpri sorg ástvina Jesú Krists. Þar voru saman komin móðir hans, vinkonur og vinir. Það var sorg sem náði inn að kviku og um leið hafa þau fundið fyrir vonbrigðum yfir því sem ekki varð. Jesús átti eftir að gera svo mikið og segja þeim svo mikið, þau treystu á hans návist, huggun og skjól, sem allt í einu var ekki lengur til staðar.Við verðum vitni að öllum þeim mennsku tilfinningum sem fylgja missi, reiði, depurð, sorg, sektarkennd og brostnar vonir. Saga föstudagsins langa er saga sem er alltaf að endurtaka sig vegna þess að lífið er fullt af aðstæðum sem eru manneskjunni þungar og óbærilegar.

Kristur bíður okkur að staðnæmast ekki við krossinn á föstudaginn langa, hann bíður okkur að halda áfram og við birtingu á páskadagsmorgni, réttir hann þér útrétta hönd og segir: Ef þú vilt, skal ég leiða þig áfram á lífsins vegi, ég get ekki lofað þér áfallalausu lífi, en geislar páskasólarinnar munu ylja þér á erfiðum tímum og bera þig áfram í gegnum myrkur sorgar og söknuðar. Við sjóndeildarhringinn er svo vonin, hin kristna von um líf sem aldrei tekur enda og nær út yfir gröf og dauða. Páskaatburðurinn er vitnisburður um þá sterku von.
Boðskapur páska er þessi: Lífið er dýrmætt, hver manneskja er dýrmæt og skiptir máli. Við eigum að njóta þess sem eigum og höfum og okkur hefur verið gefið. Látum hverja stund vera gæðastund, eyðum ekki orkunni í óþarfa þras og leiðindi. Skiljum sátt, látum ekkert vera ósagt.
Tökumst á við erfiðleikana þegar þeir koma upp, tölum saman um það sem skiptir máli og leysum ágreining sé hann til staðar. Njótum þess að vera í samfélagi hvert við annað, nándin er mikilvæg og sem samfélag tökumst við saman á við aðstæður í gleði og sorg. Látum hverja stund skipta máli, vegna þess að við vitum aldrei hvenær sorgin knýr dyra og öll sú vinna sem við leggjum í lífið hér og nú mun skipta máli til framtíðar litið.
Upprisan á sér nefnilega stað á hverjum degi, hún á sér stað í hverri manneskju, í hverju augnabliki þar sem elskusemi og kærleika er að finna, í hversdagslegum athöfnum þar sem manneskjur sýna hver annarri virðingu, í atferli þar sem við sköpum réttlæti úr óréttlæti, þar sem við tökum málstað þeirra sem á hallar í samfélaginu og þar sem við finnum neyð og leggjum eitthvað til.
Upprisan á sér stað við hverja skírnarlaug, þar sem barn er tekið inn í kristið samfélag undir því fyrirheiti Jesú að hann muni aldrei frá okkur víkja og vaka yfir okkur allt alla daga, allt til enda veraldar. Upprisan á sér stað í jásvari fermingarbarnsins, sem tekur þá ákvörðun að gera Jesú Krist að leiðtoga í sínu lífi og láta orð hans og gjörðir vera fyrirmynd sína á veginum sem fetaður er í átt að framtíð fullri af fyrirheitum.
Upprisan á sér stað í jásvari hjóna sem frammi fyrir Guði taka þá ákvörðun þiggja fyrirbæn og blessun yfir sínum samvistum með þá von að Guð vaki yfir þeirra lífi og starfi og upprisan á sér stað við gröfina þar sem fólk stendur sorgmætt og þögult frammi fyrir aðstæðum sem engin orð geta lýst.

Hún lýsir sér í faðmlagi, handartaki, nálægð og því skjóli sem við manneskjur getum veitt þeim sem líða. Þannig smátt og smátt getum við farið að sjá sólina koma upp á ný líkt og birtan á páskadagmorgni sem blasti við konunum sem komu sorgmæddar að vitja grafar vinar síns.
Góður Guð gefi að ljós hins upprisna Krists nái að vísa ykkur veginn áfram, svo við getum tekist á við hverja stund og allar þær aðstæður sem lífið færir okkur í fang.
Ég hóf þessa sorgarumfjöllun á ljóði Davíðs Stefánssonar og það er við hæfi að enda hana á orðum Davíðs úr einum fallegasta sálmi sem hann hefur samið og er tengdur atburðum kyrruviku órjúfanlegum böndum og megi þessi orð vera bæn okkar allra nú þegar vor leysir vetur af hólmi.

Ég fell að fótum þínum,
Og faðma lífsins tré
Með innri augum mínum
Ég undur mikil sé
Þú stýrir vorsins veldi
Og verndar hverja rós
Frá þínum ástareldi
Fá allir heimar ljós.
Amen.   Bolli Pétur Bollason.