Söngleikurinn Ást frumsýndur

0
117

Síðastliðinn föstudag, 24. nóvember, var Söngleikurinn Ást frumsýndur í Samkomuhúsinu á Húsavík. Vakti leikurinn fádæma góðar undirtektir, en leikstjóri er Jakob S. Jónsson og tónlistarstjóri Knútur Emil Jónasson.
Frumsýningargestir fögnuðu vel og lengi í lok sýningar og var almennt talið, að sýningin væri bæði skemmtileg og einlæg og gæfi mörg tækifæri til hláturs þótt undirtónninn sé líka alvarlegur.

Ást á sviðinu. Mynd af vef leikfélags Húsavíkur

 

– Þessi sýning er bæði djúp og full af ást, var álit ungs áhorfenda, sem sagði að þessi sýning um ást á elliheimili ætti erindi til allra.

 

 

Söngleikurinn Ást er eftir þá Vesturportsfélaga Gísla Örn Garðarsson og Víking Kristjánsson og er þetta í fyrsta sinn, sem áhugaleikfélag á Íslandi tekur verkefni úr smiðju Vesturports upp á sína arma.
Um tuttugu leikarar stíga á svið og eru flestir meðal reyndustu leikara leikfélags Húsavíkur. Þriggja manna hljómsveit leikur undir en fjöldi þekktra íslenskra og erlendra sönglaga fléttast inn í atburðarás verksins. Erlendu lögin voru flest þýdd á íslensku fyrir þessa uppfærslu Leikfélags Húsavíkur.
Með Söngleiknum Ást vill Leikfélag Húsavíkur i samvinnu við fyrirtæki í bænum og Húsavíkurstofu gera Húsavík að höfuðborg ástarinnar og gefur félagið kost á leikhúsferðum af öllu Norður- og Austurlandi í samvinnu við Fjallasýn ehf.,
Veitingahúsið Sölku, Foss Hótel Húsavík og flugfélagið Ernir.

Söngleikurinn Ást verður sýndur fram í desember og verða sýningar teknar upp aftur milli jóla og nýárs og verður sýnt fram í janúar. Vissara er að tryggja sér miða í tíma, en fjöldi sýninga fer eftir aðsókn.
Nánari upplýsingar má fá hjá Leikfélagi Húsavíkur í síma 854 00 44 og á vefsíðunni www.leikfelagid.is.