Hlini Gíslason bóndi í Svartárkoti í Bárðardal hélt tónleika í menningarhúsinu Bergi á Dalvík í gærkvöldi sem heppnuðust vel. Svo segir frá á vefnum Svarfdælasýsl sem Atli Rúnar Halldórsson heldur úti á veraldarvefnum. 641.is fékk leyfi Atla Rúnars til þess að birta hans skrif.

Lengi von á einum söngfuglinum enn úr svarfdælskri byggð á stóra sviðinu. Hann er skriðinn úr eggi svo um munar. Hlini Gíslason frá Hofsá sló í gegn fyrir troðfullu menningarhúsinu Bergi á Dalvík í kvöld.

Svarfdælingar og nærsveitamenn vita að Hlini hefur mikil og fögur sönghljóð í Tungurétt á haustin og kippa sér svo sem ekki upp við það. En mörgum sveitungum í salnum kom greinilega í opna skjöldu í kvöld að Hofsárdrengurinn væri slíkur dúndursöngvari í klassík. Hann verður því vafalaust krafinn um óperuaríur umfram drykkjusöngva í réttum í haust.

Það voru víst ekki nema í mesta lagi helmingslíkur á því í byrjun vikunnar að Hlini yrði söngfær vegna kvefpestar og hæsi. Læknavísindin leyna sífellt á sér og glúrnum doktor tókst að gera Hofsármann bæði sjófæran og söngkláran fyrir Berg. Megi doktorinn sá fá góðar móttökur á himni sem á jörðu fyrir góðverkið.

Hvert sæti í salnum var skipað og rúmlega það. Þetta var stórbrotin og eftirminnileg samkoma, sannkölluð tónaveisla. Hlini og Páll Barna Szabó píanóleikari voru að sjálfsögðu í aðalhlutverkum. Þarna komu líka fram Michael Jón Clark, kennari Hlina, sem fiðluleikari og söngvari; Steinar Steingrímsson frá Ingvörum og Felix Jósafatsson Dalvíkurlögga sungu af innlifun og snilld og þýska söngkonan og píanóleikarinn Andrea Lucas söng og spilaði eftirminnilega. Hún var um hríð á Hofsá í den tid (reyndar er verðugt rannsóknarverkefni að skrá og varpa sögulegu ljósi á allan kvennablómann sem safnaðist í kaupamennsku að Gísla og Heiðbjörtu á Hofsá sumar eftir sumar, sveitardrengjum til býsna eftirminnilegrar ánægju).

Tryggvi Snær Hlinason, Guðrún Tryggvadóttir og Hlini Gíslason

Svo má ekki gleyma kynni kvöldsins sem setti sinn ljúfa svip á samkomuna, Guðrúnu Tryggvadóttur, bónda í Svartárkoti í Bárðardal og eiginkonu Hlina frá Hofsá. Þór á Akureyri og áhugamenn allir um körfubolta geta þakkað þeim Svartárkotshjónum fyrir körfuboltastjörnuna nýútsprungnu, Tryggva Snæ.

Fjölskyldunni til heiðurs er birt mynd af foreldrum með körfuboltasyninum hér neðar í skjalinu.Þegar texti er skrifaður í tölvu má jafna hann til hægri eða vinstri eftir vild og smekk. Þegar tekin er mynd af Tryggva Snæ og foreldrum hans í Svartárkoti er verkefni dagsins hins vegar að ofanjafna. Slíkt er erfitt við venjulegar aðstæður og árferði en reyndist létt verk í Bergi. Þar eru nefnilega náttúruleg þrep sem koma eins og kölluð í fang ljósmyndara sem leitast við að slétta ójöfnur í fjölskyldum.

Svarfdælasýsl var á vettvangi söngsins á Dalvík og stalst til að taka upp tóndæmi til að geta sýnt og sannað fyrir ykkur sem heima sátuð að yður er í dag söngvari fæddur. Söngfuglinn fæddist reyndar fullskapaður frammi fyrir sveitungum sínum. Það var mikil ánægjustund.


Sjá má fleiri myndir frá tónleikunum á vefnum Svarfdælasýsl