Slátrun hefst 5. september hjá Norðlenska á Húsavík

0
232

Almenn sauðfjárslátrun hefst hjá Norðlenska á Húsavík miðvikudaginn 5. september. Það verða lömb bænda úr Aðaldal, Reykjahvefi, Svarfaðardal og af austurlandi sem verður slátrað fyrst.  Mývetningar slátra svo daganna 6-7 september.

Úr sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Mynd : Norðlenska.is

Á fimmtudag í síðustu viku bauð Norðlenska upp á forslátrun og nýttu nokkrir bændur sér það. Þá var alls slátrað 800 lömbum og var meðalþyngdin óvenju góð, eða tæplega 17 kíló. Þyngsta lmbið vó 26,5 kíló. Að sögn Sigmundar Hreiðarssonar sláturhússtjóra Norðlenska á Húsavík lítur út fyrir að lömbin sem slátrað verður hjá Norðlenska í haust verði væn, ef miðað er við lömbin sem skiluðu sér í forslátrunina.

Fólk frá þrettán löndum hefur verið ráðið til starfa í sláturhúsi Norðlenska í komandi sláturtíð og kemur megnið af erlenda starfsfólkinu til Húsavíkur á morgun. Nokkrir eru þó þegar komnir til starfa.

Það verður því allt klárt á miðvikudagsmorguninn þegar sláturhús Norðlenska á Húsavík verðu sett í fullan gang, að sögn Sigmundar Hreiðarssonar sláturhússtjóra.