Skútustaðahreppur – Fjárhagsáætlun 2019 – Ókeypis skólamáltíðir

Lækkun fasteignagjalda eldri borgara og miklar fjárfestingar

0
332

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti fjárhagsáætlun 2019-2022 á fundi sínum 28. nóvember 2018.  Fjárhagsáætlun endurspeglar viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins undanfarin ár til hins betra og ber þess merki að frekari uppbygging er fram undan. Forgangsverkefni næsta árs er stækkun leikskóla, viðhald á eignum sveitar-félagsins, kaup á nýjum íbúðum og komið verður sérstaklega til móts við tvo hópa, þ.e. fjölskyldufólk og eldri borgara:

• Fjölskyldufólki með því að bjóða upp á ókeypis skólamáltíðir í grunnskóla og leikskóla frá og með áramótum.

• Eldri borgurum með því að lækka fasteignagjöld verulega. Í flestum tilfellum falla fasteignagjöld þeirra alveg niður því tekjuviðmið til niðurfellingar og afsláttar hafa verið hækkuð um 38% á milli ára.

Fjárhagsáætlun þessi hefur verið unnin af sveitarstjórn, sveitarstjóra, skrifstofustjóra auk þess sem samráð var haft við forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og endurskoðanda.

Fjárhagsáætlunin er unnin út frá markmiðum sem sveitarstjórn setti sér á 5. fundi þann 26. september 2018 en þau eru:

Áfram skal haldið með markmið sem sett voru í fjárhagsáætlun 2018-2021. Rekstur A-hluta sveitarfélagsins verði í jafnvægi, þ.e. skatttekjur og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta. Jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B-hluta, sem jafnframt standi undir framkvæmdum án lántöku. Engar vaxtatekjur verði nýttar til rekstrar, eingöngu til fjárfestinga eða til að auka við handbært fé Skútustaðahrepps. Sem þýðir þá að rekstrarafgangur þarf að vera meiri eða jafnmikill og vaxtatekjur. Handbært fé verði ekki lægra en 100 milljónir króna.

Sjá nánar á vef Skútustaðahrepps.