Skrítin skólamál

0
89

Einhver furðulegasta fæðing í Þingeyjarsýslum á seinni árum er sameining sveitarfélaga og hafa framfarir þær sem áttu að verða, látið á sér standa og sumir hafa tapað með öllu sjálfstæði sínu og sjálfsákvörðunarrétti. Reykhverfingar fengu smjörþefinn af þessu þegar sveitarfélagið Norðurþing seldi hlut þeirra í Hafralækjarskóla án þess að þeir fengju að vita neitt um þá ákvörðun fyrirfram. Í kjölfarið kom ákvörðun um að taka börn Reykhverfinga og aka þeim í Borgarhólsskóla og slíta um leið 40 ára samstarfi Reykhverfinga, Aðaldælinga o.fl. í skólamálum.

Atli Vigfússon
Atli Vigfússon

Samstarf þetta var með ágætum og á fjörutíu ára ferli er margt sem stendur eftir sem hefur styrkt samhug og samvinnu fólksins í þessum sveitum, enda vildu allir halda þessu samstarfi áfram.
Skólamálin voru auðvitað rædd strax í upphafi sameiningar Reykjahrepps við Húsavík þ.e. árið 2002 og þá sögðu frambjóðendur til sveitarstjórnar að ekki stæði til að hrófla við skólahverfinu. Á fundi í félagsheimilinu Heiðarbæ 10.apríl það ár með H-listanum var meira að segja rætt um samstarf Borgarhólsskóla og Hafralækjarskóla sem yrði öllum til hagsbóta. Í sama streng tók Þ-listinn sem sagði að mennastofnanir væru hornsteinar samfélagsins sem yrði að styðja. Frambjóðendur væntu mikils af sameiningunni og 5.maður H-listans rómaði mjög Reykhverfinga og lagði á það sérstaka áherslu í grein sinni í Skarpi 26.apríl það ár að standa vörð um málefni þeirra.

Voru lög brotin á Reykhverfingum?

Á sínum tíma lögðu Reykhverfingar mikið fé í Hafralækjarskóla og því var fráleitt annað en að láta þá vita af því að til stæði að selja eignirnar og breyta skólahaldi í framhaldi af því. Í lögum nr. 138 frá 2011 um sveitarfélög (gr.103) segir svo: “Sveitarstjórn skal upplýsa íbúa sína um áætlanir sem sveitarfélag hefur til meðferðar og ákvörðunar og varðar þá með almennum hætti. Sama gildir um einstök mál sem hafa verulega þýðingu fyrir sveitarfélagið…….” Það má þá spyrja sig að því hvort lög hafi verið brotin og dæmir nú hver fyrir sig.
Það má líka segja að með ákvörðun þessari hafi verið farið að skjön við grunnskólalög þar sem skólaráð Hafralækjarskóla fékk ekki formlegt erindi um væntanlegar breytingar á skólastarfi, en í grunnskólalögum frá 1.júlí 2008, II. kafli (8 gr.) segir eftirfarandi: “Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin.”
Engin umsögn skólaráðs Hafralækjarskóla lá því fyrir og Þingeyjarsveit keypti hlutinn án þess að hvetja til þess að gerður yrði áframhaldandi þjónustusamningur um að nemendur úr Reykjahverfi stunduðu nám sitt í Hafralækjarskóla.
Vissulega barst fréttin um brottnám Reykhverfinga út og auðvitað var hægt að tjá sig um þessa breytingu og verður að segjast eins og er að það var mikið tómlæti hjá skólaráði Hafralækjaskóla að álykta ekki opinberlega um mikilvægi þess að Reykhverfingar væru áfram í skólanum. Með góðum þjónustusamningi var það hægt, þó svo að eignirnar væru á höndum Þingeyjarsveitar.

Undarlegt skipulag skólaaksturs

Vissulega ber að virða þá ákvörðun sveitarfélagsins Norðurþings að leyfa elstu grunnskólanemendum úr Reykjahverfi að klára sitt nám í Hafralækjarskóla. Hins vegar er vandræðagangurinn í sambandi við skólaaksturinn eftirminnilegur og ekki síst það að sumir bæjarfulltrúar skyldu mælast til þess að foreldrar gerðust sjálfir skólabílstjórar samanber íbúafund í Heiðarbæ sl.vetur. Í framhaldi af þeim fundi komu foreldrar elstu barna í sveitinni saman og óskuðu eftir því að ákvörðun lægi fyrir á vordögum þ.e. í júníbyrjun og nemendur gætu gengið að því vísu að ekið yrði í skólann. Fátt eitt heyrðist allt sl. sumar nema hvað það fréttist af útboði á skólaakstri og í vikunni áður en skóli átti að hefjast var hringt og sagt að ekki yrði ekið á skólasetninguna. Virtist þá sem skiplagið væri ekki á hreinu, en það yrði akstur. Mánudaginn 26.ágúst hófst svo skólinn samkv. stundaskrá og þá um morguninn fóru börnin út á veg án þess að vita hver myndi keyra þau og því var ekki laust við að sum væru kvíðin. Ekkert var látið vita kvöldið áður. Og svo kom bíll frá Sérleyfisbílum Akureyrar (SBA), en ekki Fjallsýn eins og verið hafði í áraraðir.
Það verður að teljast undarlegt að það þurfi að semja við fyrirtæki á Akureyri um að aka börnunum þegar rútufyrirtæki eins og Fjallasýn er til staðar í sveitinni. Skólaksturinn var í góðum höndum og foreldrar og nemendur væntu þess að sami aðili myndi klára þessi tvö ár sem eru eftir og ótrúlegt ef svona lagað borgar sig.

Skólabíllinn þarf líka að vera fyrir nemendur FSH

Nú þegar skólabíll gengur til Húsavíkur úr Reykjahverfi með yngri nemendur sveitarinnar hljóta menn að velta því fyrir sér hvers vegna nemendur úr sveitinni sem stunda nám í FSH (Framhaldsskólanum á Húsavík) geta ekki tekið bílinn.
FSH byrjar kl. 8.00 á morgnana, Borgarhólsskóli byrjar kl. 8.15 og því er skólabíllinn ekki í takt við framhaldsskólanemendur. Þar af leiðandi þurfa þeir að aka sjálfir rétt á undan skólabílnum til þess að komast í tæka tíð.
Það er mikið vatn runnið til sjávar síðan Framhaldsskólinn á Húsavík var stofnaður og tími til kominn að efndir um eflingu hans líti dagsins ljós.
Í sveitarstjórnarkosningum 2002 var þá þegar rætt um heimavist og akstur, en í kosningunum 2006 var mun meira um hann rætt og allir ætluðu að efla hann og bæta. Í stefnuskrá B-lista sagði þá m.a … að mikilvægt væri að skilgreina hann sem heimaskóla allra í sveitarfélaginu, en ekki bara þeirra sem byggju á Húsavík og mikilvægt væri að skoða möguleika á heimaakstri og heimavist. Undir þetta tóku hinir listarnir og D-listinn taldi þetta forgangsverkefni og það gerðu fulltrúar V-lista einnig.
Sama var upp á teningnum árið 2010 þegar kosið var til sveitarstjórnar og þá ætluðu Samfylkingin, Vinstri grænir sem og aðrir að hlúa að skólanum sbr. athyglisverðar greinar í Skarpi 12. maí 2010.

Voru loforðin loftkastalar?

Þrátt fyrir góðan ásetning frammámanna á Húsavík sést ekki enn þessi nýbyggða heimavist við framhaldsskólann, þar er ekkert mötuneyti og enginn skólaakstur. Er þá FSH heimaskóli fyrir alla í sveitarfélaginu? Það er ástæða til þess að draga það í efa. En hvað var þá frammáfólkið að gera? Voru þetta allt loftkastalar sem verið var að tala um?
Auðvitað þarf að hafa bein í nefi til þess að útvega fjármagn í svona framkvæmdir og ekki er grunlaust um að áherslur áhrifafólks hafa verið í aðrar áttir heldur en að blása til sóknar í þessu máli.
Skólamál skipta alla miklu og það er mikilvægt að horfa á sýslurnar sem heild þegar fjallað er um ungt fólk og framtíð þess. Hvort einhvern tímann fæðist eitt stórt samhent sveitarfélag í sýslunum skal ósagt látið, en vonandi verða þá múrar á milli skólahverfa óþarfir sem nú hafa verið reistir milli Aðaldals og Reykjahverfis.

Atli Vigfússon.

Höfundur er kennari og starfaði um árabil við Hafralækjarskóla.