Sjálboðaliðaverkefni Lífsmótunar

0
88

Kæru sveitungar. Sérhver einstaklingur tilheyrir hinum ýmsu samfélögum manna og samfélagshópum. Við verðum oft svo náin sumum af þessum hópum að við notum þá til að skilgreina það hver við erum. Þannig erum við af einhverju þjóðerni, búum í ákveðnu landi eða landshluta, ólumst upp í ákveðinni sveit eða bæjarfélagi, tilheyrum ákveðnu kyni, íþróttafélagi, trúarhópi, stjórnmálaflokki eða minnihlutahópi. Oft verða sumir svo nánir einhverju ákveðnu samfélagi að vart má á milli greina hvar einstaklingnum sleppir og samfélagið tekur við.

Allimar2104
Christina Krapf og Maximilian Keiler. Mynd.

Af þessu má leiða að ekkert samfélag er betra eða verra en þeir einstaklingar sem það búa og það mótar þá sem fæðast (eða flytjast) nýir inn í samfélagið. Á sama tíma mótar sérhver einstaklingur með sínu hátterni sitt nánasta umhverfi. Þannig hefur hver einstaklingur tækifæri til þess að breyta samfélaginu.

Í þessu felast tækifæri mannsins um leið og hans ábyrgð liggur þarna.

Með öðrum orðum, og ef til á einfaldari hátt, mætti segja að það líf sem við lifum móti okkur á sama tíma og hver maður búi yfir tækifærum til þess að móta sér það líf sem hann vill lifa. Það er ekki hvað síst vísun til þeirrar vonar til endurreisnar og betri vega sem felast í þessum tækifærum sérhvers einstakling til breytinga sem við hjónin völdum nafnið á það starf sem við stofnuðum ásamt fleiri vinum okkar í þeim tilgangi að halda utan um það sem við viljum gera til betra samfélags, Lífsmótun.

Ein af stoðunum í starfi Lífsmótunar síðustu árin hefur verið að bjóða ungu fólki frá öðrum Evrópulöndum að dvelja veturlangt í okkar fámenna íslenska sveitasamfélagi. Með þátttöku Lífsmótunar í Ungmennaáætlun Evrópusambandsins (sem Ísland er aðili að fyrir tilstuðlan EES samningsins), Evrópu unga fólksins, og með hjálp samstarfsaðila á svæðinu hefur þetta verið mögulegt. Það hversu margt í okkar samfélagi er ólíkt því sem þetta unga fólk hefur alist upp við hefur verið því mikil áskorun til þess að takast á við. Fyrir þeirra hönd og okkar vil ég þakka öllum sem lagt hafa sitt að mörkum til þess að taka þeim opnum örmum, styðja og styrkja í því að læra að þekkja og skilja okkar samfélag og verða hluti af því. Öll upplifa þau sig í dag eiga rætur hingað, hafa eignast hér kunningja og vini til lífstíðar. Þau fóru héðan reynslunni ríkari.

Ég er ekki síður þakklátur sjálfboðaliðunum sem hafa komið fyrir þeirra framlag. Þau gáfu af sér til okkar samfélags og auðguðu það með ferskum framandi vindum. Samfélag með þeim hefur bætt mig og efalaust fleiri sem þá um leið hlýtur að bæta það samfélag sem ég bý. Og þá er tilganginum náð því þátttaka Lífsmótunar í Evrópu unga fólksins er ekki einvörðungu sá að skapa því unga fólki sem kemur hingað tækifæri til að þroskast og læra heldur einnig að okkar eigið nærsamfélag læri af því. Að ég og þú og allir hinir verði mótaðir af lífinu til betra lífs.

Sjálfboðaliðaverkefninu „Chance to change“ er lokið. Við þökkum þeim Christina Krapf og Maximilian Keiler fyrir þeirra framlag til verkefnisins. Öllum formlegum og óformlegum þátttakendum þökkum við, fyrir okkar hönd og sjálfboðaliðanna, fyrir að leggja sitt að mörkum til þess að vel tókst til.

Um miðjan ágúst hefst síðan næsta verkefni, „Change and be the change“ og hlökkum við til að fá tækifæri til þess að kynnast og kynna fyrir ykkur sjálfboðaliðann í verkefninu, Maria Bischof.

Verkefnin eru styrkt af Evrópu unga fólksins (sjá euf.is).

Fyrir hönd Lífsmótunar, Aðalsteinn Már Þorsteinsson, Hjalla Reykjadal.