Sigurður í Yztafelli – Almúgamaður í ráðherrastóli

100 ára ráðherraafmæli 4.janúar 1917 – 2017

0
563

Sigurður Jónsson í Yztafelli varð fyrsti ráðherra Framsóknarflokksins. Hann tók við embætti atvinnumálaráðherra og samgönguráðherra í ráðuneyti Jóns Magnússonar 4.janúar 1917 og sat til 25.febrúar 1920. Sigurður var einn af 5 alþingismönnum sem bundust fastmælum um stofnun Framsóknarflokksins – staddir á Seyðisfirði á leið til þings – að liðnum býsna sögulegum kosningum 1916. Sigurður var landskjörinn þingmaður Óháðra bænda og hélt því þingsæti fyrir hönd Framsóknarflokksins af landslista til æviloka 1926.

Sigurður var fæddur á Litluströnd í Mývatnssveit 28. janúar 1852, dáinn 16. janúar 1926. Foreldrar hans voru Jón Árnason og Þuríður Helgadóttir. Sigurður fór til fósturs hjá afa sínum Árna á Sveinströnd og ungrar konu hans Guðbjargar Aradóttur. Að Árna látnum flutti Sigurður í Grænavatn með fóstru sinni en 1862 flutti Guðbjörg í Yztafell með seinni manni sínum Þorsteini Jónssyni. Sigurður tók ungur forstöðu fyrir búi fóstru sinnar þegar hún var orðin ekkja.

Árið 1889 keypti Sigurður Yztafellsjörðina og stofnaði eigin bú með konu sinni Kristbjörgu Marteinsdóttur. Þar bjuggu þau til æviloka – utan þeirra ára sem Sigurður gengdi ráðherradómi. Bóndi í Ystafelli 1889–1917 er synir hans Jón og Marteinn tóku við búi og skiptu jörðinni á milli sín.

Börn Sigurðar og Kristbjargar: Jón bóndi og rithöfundur í Yztafelli (1889), Guðbjörg, húsfreyja á Stóruvöllum (1891) Marteinn bóndi í Yztafelli (1893), Hólmfríður húsfreyja á Hallgilsstöðum (1896), Kristín húsmóðir í Reykjavík (1897), Þormóður sóknarprestur í Ljósavatnssókn (1903). Auk þess tóku þau til fósturs Baldvin H Sigurðsson sem átti heimili í Yztafelli nær samfellt síðan og til æviloka.

Uppvöxtur Sigurðar í Mývatnssveit og síðan í Yztafelli; – var mótaður af því að hann fór frá foreldrum sínum á fjórða árinu. Engu að síður hélt hann góðu sambandi við móður sína og þekkti bræður sína og systur meðan þau bjuggu á Skútustöðum. Með því að hann flutti í Yztafell átti hann reglubundið ferðir með fóstru sinni í Mývatnssveit amk. haust og vor og strax sem hálffullorðinn fór hann sjálfur að sækja aðdrætti, silung og smjör og innheimta leigur af Skútustaðapartinum – um leið og hann sótti sér félagsskap til frænda og vina og uppbyggilegar samræður um bókmenntir, pólitík þjóðfélagsstrauma. „Hljóp upp í Sveit. . . – kom í Helluvað og gisti . . . „ segir hann á fleirum en einum stað í dagbókum sínum. Á Helluvaði bjó Jón Hinriksson skáld – með Sigríði Jónsdóttur og þeirra börnum sem voru sum á aldri við börn Sigurðar – elstu börn Jóns voru hins vegar jafnaldra Sigurði og systrabörn við hann (börn Friðriku Helgadóttur) og af þeim varð Jón í Múla samverkamaður í Huldufélagi og Þjóðliði Þingeyinga og öðrum samfélagsmálum.

Pólitískir samherjar, kaupfélagsmenn voru um alla Þingeyjarsýslu og samkomur og fundir voru víða haldnir. Eftir að Kaupfélag Þingeyinga var stofnað fór mikill tími Sigurðar í málefni félagsins og einkum Ljósvetningadeildar sem hann veitti forystu. Deildarstjórinn innti af höndum verulega vinnu fyrir félagsmennina og annaðist pöntun, afgreiðslur og allt uppgjör. Í einstökum tilfellum munu deildarstjórarnir hafa tekið persónulegar ábyrgðir á viðskiptum deildarmanna gagnvart félaginu.

Það var ólíklega tilviljun að Samband Íslenskra Samvinnufélaga (fyrist Sambandskaupfélag Þingeyinga) var stofnað á heimili Sigurðar í Yztafelli 20 febrúar 1902. Sigurður var einn aðakvatamaður þess að stofna til samtaka kaupfélag og samstarfs – ekki síst í þeim tilgangi að stækka viðskiptasvæði kaupfélaga og skapa möguleika á auknum ávinningi í innkaupum og öðru samstarfi. Fyrir útbreiðslu samvinnuhugsjónarinnar lagði Sigurður á sig mikil ritstörf og ritstjórn tímarits samvinnumanna. Erindrekstur og skipulegt fyrirlestrahald árin 1911-1916 tók mikinn tíma fyrir Sigurði en í þeim tilgangi fór hann um allt land og fræddi íbúa í öllum byggðarlögum. Fyrirlestrar þessa kynningarstarfs hafa ekki varðveist nema að litlu leyti – en þeim skipti Sigurður upp á milli félagsfræði og heimspeki og praktískrar áherslu á viðskiptalíkan samvinnuhreyfingar þar sem samábyrgð heildarinnar var ætlað að skapa öllum hlutdeild í ávinningi viðskiptanna.

Bræður Sigurðar voru eldri Sr. Árni lengi alþingismaður Mýramanna. Árni fór til Canada en kom heim og gekk í prestaskólann var prestur síðan á Borg á Mýrum og Skútustöðum til 1916 – síðast á Hólmum í Reyðarfirði. (Árni virðist mögulega hafa hopað undan uppreisn Mývetninga gegn kirkjum og yfirvaldi og úrsögnum úr Þjóðkirkjunni sem ungmennafélögin hvöttu jafnvel til.) Helgi bóndi og hreppstjóri á Grænavatni og forsöngvari í Skútustaðakirkju. Hjálmar bóndi á Ljótsstöðum í Laxárdal. Jón sem fórst ungur við fjárgeymslu á Skútustöðum. Systur hans voru Guðrún húsfreyja á Húsavik og Hólmfríður húsfreyja í Skógum í Reykjahverfi. Guðbjörg dó 10 ára á Svínadal. Hálfsystkin samfeðra voru Vilhjálmur og Júlíana.

Sigurður var fljótur til lestrar og áhugasamur um allt nám. Hann sótti ekki skóla annað en hjá Þorsteini manni Guðbjargar og heimiliskennurum í Yztafelli. Hann var ekki nema 14 ára þegar Þorsteinn féll frá og Guðbjörg varð aftur ekkja með tvö ung börn, þau Jón Þorsteinsson seinna bónda og skáld á Arnarvatni og Þuríði. Ráðsmenn Guðbjargar í Yztafelli voru ekki allir gagnsmenn og þótt fóstra hans eignaðist barn með einum þeirra Benedikt frá Mjóadal (Kristrúnu) þá stöldruðu þeir stutt við. Sigurður tók því snemma við forstöðu búsins fyrir hönd fóstru sinnar. Svo vildi til að vegna barnseignar Guðbjargar í ekkjustandi þurfti hann að kaupa maddömutitilinn handa henni til að fóstran fengi eftirlaun prestsekkna. Við búslok Guðbjargar í Yztafelli keypti Sigurður jörðina og þótt honum væri virt vinna að búin til verðs munu margir hafa talið að hann keypti hana nærri tvisvar eða meira en fullu verði.

Einar Ásmundsson bóndi í Nesi í Höfðahverfi var einn velgerðarmaður Sigurðar og útvegaði honum mikið af lesefni á erlendum tungumálum. Auk þess var Sigurður einn af félögum í Þjóðliði Þingeyinga (Huldufélaginu Ófeigi í Skörðum) og leitaði sér mikillar menntunar í gegn um bóklestur og skoðanaskipti um þjóðfélagsmál og heimspeki.

Sigurður lærði og las Norðurlandamál og ásamt Sr.Árna bróður sínum lagði hann stund á sjálfsnám í ensku. Á ungum árum virðist sem hann hafi jafnvel hugsað sér að flytjast til Ameríku en þangað flutti Árni bróðir hans (tímabundið) og fjöldi af skyldfólki hans af Skútustaðaættinni. Sigurður fór í myndatöku með Árna á Akureyri og hefur vafalaust reiknað með því að þeirra fundum mundi ekki bera saman aftur síðar; hann orðar það á þessa leið í dagbókarfærslu; „Árni bróðir fór á skip í dag, en ég „hvarf heim til minnar Hlíðar“ . . . með enska leskafla og stílagerð í farteski sínu.

Sigurður stundaði kennslu á ýmsum stöðum í Suður-Þingeyjarsýslu á yngri árum og hélt unglingaskóla heima hjá sér öðru hverju 1875–1897. Sigurður var einn af áköfustu talsmönnum alþýðumenntunar og þess menningar og upplýsingaanda sem félagshreyfingar Þingeyinga héldu fram á tímabilinu eftir 1850. Stofnun lestrarfélaga í sveitum Þingeyjarsýslu, sparisjóða/sparnaðarfélaga og kaupfélaga fyrst 1882 voru leiðarmerki á þróunarbraut. Seinna komu ungmennfélögin til og afar fjölbreytt menntunar- og menningarstarf þar sem margir ungir menn sóttu skóla í Noregi og Danmörku og jafnvel einnig á Bretlandseyjum í samhengi við sauðasölu og blómleg viðskipti undir lok 19. aldarinnar.

Sigurður fór milli bæja í Þingeyjarsýslu og safnaði fé til að kosta menntun og menningarferðir Jónasar Jónssonar frá Hriflu í Danmörku og Englandi á fyrstu árum 20.aldarinnar. Í því efni nýtti Sigurður sér fjölskylduvensl Árna bróður síns sem var um skeið forseti alþingis (þingmaður Mýramanna) þar sem Garðar Gíslason mágur Árna gerðist umboðsmaður og fjárhaldsmaður Jónasar bæði í Kaupmannahöfn og Lundúnum.

Sigurður og Kristbjörg buðu fjölmörgum ungmennum til náms og veittu vinnufólki sínu aðgang að menntun sem ýmsir nýttu sér til metnaðarfulls náms í framhaldinu. (Nefna má Ásgeir Jónsson frá Gottorp sem var ungum komið fyrir í vinnumennsku í Yztafelli en Sigurður sá efnin í þessum unga manni og leyfði Ásgeiri að sitja skólann og leysti hann frá vinnukvöðum þann tíma).

Þjóðlið Þingeyinga; (Huldufélagið Ófeigur í Skörðum) var einhvers konar byltingarhreyfing. Stefndi að róttækum þjóðafélagsumbótum m.a. jafnrétti karla og kvenna, atvinnufrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju og fullu innlendu sjálfstæði fjárveitingar og löggjafarvalds. Kaupmannavaldinu var ögrað og kennivaldi embættismanna og klerka sögðu þeir stríð á hendur. Það var ekki tilviljun að þeir straumar sem mótuðu umræðu þeirra frumkvöðlanna í Þingeyjarsýslunni fóru að verulegu leyti framhjá Lærðaskólanum og Höfuðborgarvaldinu á Bessastöðum og í Reykjavík og sótti beint til erlendra áhrifa. Vefararnir í Rochdale og heimspekingar síðari hluta 19. aldarinnar gáfu mönnum verkfæri að vinna með.

Lestrarfélögin virkjuðu fjölda velgefinna einstaklinga – einkum yngri karlmenn – og landslagið og samgöngur í Þingeyjarsýslu auðvelduðu mönnum að sammælast og stofna til félagsskapar og fundahalda. Skrifuð sveitarblöð urðu að fjölmiðlun þessa tíma. Sauðasalan til Bretlands/Skotlands færði almúgabændum peninga og þeim fjölgaði mjög sem urðu fjárhagslega sjálfbjarga. Með því virðist þeim hafa orðið auðveldara að brjóta sig undan valdi dönsku kaupmannanna.

Stofnun Kaupfélags Þingeyinga 1882 markaði mikilvæg tímamót. Það var ekki tilviljun að þeir frændur (systrasynir) Jón Jónsson í Múla urðu afar nánir félagar í þessu gengi. Jón (þá á Arnarvatni) var kjörinn á alþingi yngstur manna 1889 og að mati Jóns Ólafssonar ritstjóra var hann „allra manna glæsilegastur og best málifarinn.“
Sex almúgamenn fæddir í Mývatnssveit um 1850 – sumir við fátækt og fjölskylduupplausn urðu alþingismenn; – þeir Sigurður í Yztafelli og Sr.Árni bróðir hans – sem og Jón í Múla – og þrír synir Jóns á Gautlöndum – þeir Kristján dómstjóri, Steingrímur sýslumaður og Pétur.

SÍS (Samband Þingeyskra kaupfélaga) var stofnað á heimili Sigurðar í Yztafelli árið 1902. Sigurður ferðaðist um allt land og flutti erindi um samvinnumál árin 1911–1915. Þessir fyrirlestrar urðu að vissu leyti að „undanfara“ að stofnun Samvinnuskólans árið 1919.

Hann var skipaður 4. janúar 1917 atvinnu- og samgöngumálaráðherra en fékk lausn 12. ágúst 1919, en gegndi störfum áfram til 25. febrúar 1920. Fluttist þá aftur að Ystafelli og átti þar heima til æviloka.

Sigurður gengdi margvíslegum trúanaðarstörfum í sinni sveit. Oddviti (Gamla)Ljósavatnshrepps var Sigurður 1888–1917 og sýslunefndarmaður 1886–1917.

Landskjörinn alþingismaður 1916–1926 (Óháðir bændur, Framsóknarflokkur).
Sigurður var kjörinn varaforseti sameinaðs þings strax og hann tók sæti á þinginu og með því var yfirgripsmikil reynsla hans af félagsmálum viðurkennd af þingheimi.

Sigurður ritstýrði tímariti fyrir kaupfélög og samvinnufélög (kaupfélaga og samvinnufélaga). — Tímarit íslenskra samvinnufélaga (1907–1916).

Í ráðuneyti Jóns Magnússonar gengdi Sigurður embætti ráðherra atvinnumála; það fól jafnframt í sér embætti viðskipta/innflutnings og bankamála og samgöngumála. Á þessum tíma var alger kreppa í heimsviðskiptum eftir að fyrri heimstyrjöldin hafði geysað um þriggja ára skeið. Ríkisstjórnin beitti sér fyrir stofnun Landsverslunar sem tók yfir allan innflutning og ráðstafaði takmörkuðum gjaldeyri þjóðarinnar. Sigurður komst upp með að skipta þeim litla innflutningi jafnt milli kaupmannaverslunar í Reykjavík og sveitarfélaga kring um landið og einn þriðjahlut ráðstafaði ráðherrann til nýstofnaðra kaupfélaga. Jafnframt var kaupmönnum sett þau skilyrði um álagningu að hún skyldi ekki vera meiri en hjá kaupfélögum og verslunum sveitarfélaganna. Reyndu kaupmenn að hnekkja þessum ákvörðunum ráðherrans með litlum árangri þó.

Þegar Sigurður tók við embætti setti forsætisráðherrann Jón Magnússon ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu undir hann og þau Kristbjörgu. Þótti elítunni í Reykjavík það ótækt að óskólagenginn bóndamaður úr ÞIngeyjarsýslu sæti ráðherrabústaðinn og “gengi til morgunerinda utan undir vegg á prjónabrókinni.” Fyrir liggur að gerð var tilraun til “samblásturs” gegn ráðherranum þar sem kaupmenn og pólitískir andstæðingar Framsóknarflokksins hugðust safna liði til að “afhrópa ráðherrann” Varnarlið verkamanna – undir forystu ÓLafs Friðrikssonar og Dagsbrúnarmanna vaktaði ráðherrabústaðinn og tókst að koma algerlega í veg fyrir að vinnufriði Sigurðar í ráðherrastól yrði í nokkru raskað.

Hvernig það bar svo til að Sigurður hvarf úr embætti atvinnumálaráðherra – eftir farsælan feril – þótt Jón Magnússon héldi áfram stjórnarforystu verður ekki rætt hér. Við tók annar Þingeyingur með sama bakgrunn í félagshreyfingu samvinnumanna, Þótt aldrei yrði Pétur á Gautlöndum félagi í Framsóknarflokknum heldur sæti sem Heimastjórnarmaður allt til dauðadags 1922.

Sigurður virðist hafa verið yfirburðamaður á margan hátt; hann var glæsimenni á velli og að sögn ömmu minnar (Sólveigar Jónsdóttur hálfsystur Jóns í Múla) var hann allra manna fallegastur og öðlingur í allri framgöngu. Á heimavelli mun Sigurður hafa gert vel við heimilismenn sína og gengið sjálfur til vinnu alla daga með ákafa en um leið með jafnaðargeði.

Ekki er vafi á að Sigurður naut trausts langt útfyrir raðir samvinnumanna og Þingeyinga og var vel kynntur. Leiða má að því líkur að hann hafi átt verulegan þátt í að upp byggðist það traust sem ríkti milli Framsóknarmanna frá stofnun Framsóknarflokksins og þeirra leiðtoga verkamanna sem stóðu að baki Dagsbrúnar og síðan að stofnun ASÍ og ALþýðuflokksins. Með því að Jörundur Brynjólfsson Þingmaður Alþýðuflokksins 1916-1919, Ólafur Friðriksson og Héðinn Valdimarsson vörðu Sigurð sem ráðherra í embætti gegn aðför kapítalistanna og forréttindaaðalsins í Reykjavík þá styrktust þau tengsl sem í framtíðinni og eftir daga Sigurðar leiddu til margvíslegrar samvinnu Framsóknarmanna í ríkisstjórn 1927-1934 og síðan samstjórn Framsóknar og Alþýðuflokksins í “stjórn hinna vinnandi stétta” 1934-1938.

Stofnun Alþýðuskóla á Laugum 1925 var eitt af frumkvöðlaverkum í anda Framsóknarmanna – og má segja að með því hafi tekist að formfesta almennt skólastarf í Þingeyjarsýslum sem Sigurður í Yztafelli hafði áður stofnað til á Ljósavatni og á eigin heimili um langt árabil. Héraðsskólar urðu síðan stofnaðir um land allt – og lögðu grunn að raunverulegri menntabyltingu í þágu almúgafólks.

Með samvinnufélögum/kaupfélögum um land allt varð til verslunarfrelsi og þeim sem nutu sjálfstæðis og sjálfbjargar fjölgaði verulega.

Með alþýðuskólum um allt land skapaðist forsenda fyrir aukinni menntun og velmegun – og ekki síst fyrir verulega auknu jafnræði kynjanna. Einokun menntastétta, kaupmanna og embættismanna – rofnaði að umtalsverðu leyti og til urðu tækifæri fyrir öflugt almúgafólk til að sæka framgang á grundvelli menntunar.

Með lestrarfélögum og ungmennafélögum um land allt varð til mjög skýr krafa um jafnrétti kynja og fjölbreytta menntun fagstétta og vinnumarkaðurinn tók þátt í þeirri þróun. Sjávarplássin vítt um landið áttu þó talsvert erfitt uppdráttar – varðandi almenna menntun og afkoma margra stóð þar lengi vel veikari fótum.

Sigurður í Yzafelli varð fyrstur almúgamanna til að gegna ráðherraembætti á Íslandi. Hann var frumkvöðull um málafylgju í stjórnmálum og félagsmálum og lagði mjög að mörkum til vakningar og sjálfstæðis bændafólks og verkamanna um landsbyggðirnar. Fyrir það sætti hann lítilækkandi orðræðu frá hálfu kaupmanna og fyrirfólks í Reykjavík.

Slíku mótlæti tók Sigurður af jafnaðargeði og lét ekki berja sig niður. Arfleifð hans til pólitískrar þróunar – til stofnunar kaupfélaga og SÍS og kaupfélaga um land allt og til stofnunar Framsóknarflokksins og þess samstarfs sem skapaðist við félagshreyfingu verkamanna og kvenna hefur ekki verið rannsakaður með neinum viðunandi hætti.

Sigurður í Yztafelli var að vissu leyti sá einstaklingur sem öðrum fremur lagði grunn að menntun og þroska Jónasar frá Hriflu – hafði frumkvæði að því að kosta hann til mennta og fóstraði tækifærin sem síðan leiddu til stofnunar Samvinnuskólans. Sigurður lagði mjög að mörkum til að skapa grunn að stjórnmálaflokki með erindrekstri sínum – og fyrirlestrum um land allt. Með ferðum sínum 1911-1916 kynntist hann fólki í öllum byggðarlögum og tengdi menn saman hugmyndaböndum sem dugðu til að framboð Óháðra bænda breyttist í Framsóknarflokkinn. Sigurður varð eðlilega oddviti landslistans í nafni Óháðra bænda – sem nokkrir íhaldssamari sýslungar hans reyndu virkilega að koma í veg fyrir að yrði til.

Sigurður ritaði “Drög að sögu Framsóknarflokksins” í síðustu missirunum sem hann lifði. Að honum látnum ákvað Kristbjörg ekkja hans að skrifin skyldu ekki birt að sinni “svo margir kynnu að reiðast því hversu Sigurður var opinskár í frásögn sinni og mati á mönnum og málefnum” . . að það væri þannig ekki efnisins virði. Nú hefur sá gagnapakki verið opnaður og sé hann lesinn með bréfasafni Sigurðar og bréfum frá Sigurði (m.a. til Þórólfs Sigurðssonar í Baldursheimi) auk nokkuð ítarlegra dagbókarskrifa Sigurðar þá kemur margt í ljós. Tilefni er til að skoða þetta tímabil samfélagsþróunar og stjórnmála nánar og þáttur Sigurðar í Yztafelli og alþýðumenntunar í anda þingeysku samfélagsbyltingarinnar hefur þar verulegt vægi.

Það er mat undirritaðs að hlutur fyrsta almúgamannsins í ráðherrastóli; Sigurðar Jónssonar í Yztafelli hafi verið fyrir borð borinn – verið vanmetinn og yfirkeyrður – einkum kannski vegna þess að hlut annarra fulltrúa þingeyskra félagsmálaberserkja t.d. Benedikts á Auðnum, Péturs á Gautlöndum og Jónasar frá Hriflu hefur verið svo mjög haldið fram – og á stundum talsvert langt umfram tilefni.

Einnig er á að líta að sá andróður sem ráðherradómur Sigurðar mætti árin 1917-1920 og mjög afgerandi tök hans á Landsverslun leiddu til þess að fullur fjandskapur var rekinn af hálfu kaupmannavaldsins og Borgaraíhaldsins í Reykjavík. Ekki bætti síðan og síðar úr skák að Jónas frá Hriflu varð bæði arftaki Sigurðar og sköpunarverk að einhverju leyti og samstarfsmaður á átakatímum. Rótgróið hatur og illmæli í garð Framsóknarmanna og lærisveina Jónasar hefur eflaust að einhverju leyti yfirfærst á Sigurð í Yztafelli sem eins og áður er á drepið var ekki talinn þess verðugur og sitja Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu og ennþá síður að hann væri neitt nægilega “tiginn til að fara með æðstu forráð framkvæmdavalds” á sviðum verslunar og bankamála.

Enn talar elíta íhalds og borgarastéttar í Reykjavík illa um Framsóknarmenn og hatar Jónas frá Hriflu – og sama er að segja um síðkrata úr Alþýðuflokkinum efti Stefán Jóhann og gegn um Gylfa Þ Gíslason og syni hans og sporgöngumenn.

Arfleifð Sigurðar Jónssonar ráðherra, alþingismanns og bónda í Yztafelli í félagsmálum og stjórnmálaþróun 1880-1930 er nægilega fyrirferðarmikil til þess að verðskulda að henni sé sómi sýndur. Afkomendum Sigurðar ætti að vera það nokkurt metnaðarmál að ráðherraafmælið sé tengt við persónu hans og fjölskyldu – og bakgrunn þeirra Kristbjargar Marteinsdóttur – í frændgarði og félagshreyfingum Þingeyinga frá 1850 og langt fram á 20. Öldina – amk. ekki síður en pólitík Framsóknarflokksins frá Yztafelli og Hriflu allt til Panama.

Benedikt Sigurðarson