Sigurður Haraldsson frá Fljótsbakka í Þingeyjarsveit leikur í glænýrri auglýsingu sem tekin var upp á Íslandi fyrir suður-afrísku skyndibitakeðjuna Chicken Licken. Auglýsingin var tekin upp 10-12. ágúst í Reykjavík, Stokkseyri, Eyrabakka og í Vík í Mýrdal og vann True North með tökuliði frá Suður-Afríku að gerð hennar. Í auglýsingunni leikur Sigurður föður drengs sem fer að haga sér undarlega og hegðunin lagast ekki fyrr en ókunnur maður langt að komin, kemur með glaðning handa drengnum.

Sigurður sagði í spjalli við 641.is í morgun að hann væri þegar búinn að leika aukahlutverk í nokkrum auglýsingum sem væri búið að sýna og öðrum sem ætti eftir að koma fyrir almennings sjónir. Hann kæmi væntanlega til með að leika aukahlutverk í einni eða tveimur íslenskum kvikmyndum á næstunni og líklega kæmi hann fram í auglýsingu hjá stóru alþjóðlegu fyrirtæki sem ekki væri búið að frumsýna.
“Kærastan mín dró mig eiginlega út í þetta, en hún tekur þátt í aukaleik. Þannig komst ég í þennan bransa. Ég tók þátt í leiklist með Búkollu hér áður fyrr, svo sem “Á svið”, en ég lék þar sviðstjóra. Einnig lék ég Grana í Stútungasögu og í Skugga Sveini sem Ketill skrækur en það var uppáhalds leikverkið mitt. Ég hef tekið þátt í aukaleik frá áramótum og nokkrum auglýsingum fyrir innlend og erlend fyrirtæki. Stærsta hlutverkið mitt hingað til er einmitt þessi auglýsing fyrir þessa kjúklingabita keðju í suður-afríku”,sagði Sigurður í spjalli við 641.is.
Auglýsinguna má skoða hér fyrir neðan.