Sigurður Haraldsson leikur í auglýsingu fyrir suður-afríska skyndbitakeðju

Nokkur verkefni framundan í kvikmyndum og auglýsingum

0
1055

Sigurður Haraldsson frá Fljótsbakka í Þingeyjarsveit leikur í glænýrri auglýsingu sem tekin var upp á Íslandi fyrir suður-afrísku skyndibitakeðjuna Chicken Licken. Auglýsingin var tekin upp 10-12. ágúst í Reykjavík, Stokkseyri, Eyrabakka og í Vík í Mýrdal og vann True North með tökuliði frá Suður-Afríku að gerð hennar. Í auglýsingunni leikur Sigurður föður drengs sem fer að haga sér undarlega og hegðunin lagast ekki fyrr en ókunnur maður langt að komin, kemur með glaðning handa drengnum.

Sigurður og kona hans í auglýsingunni. (skjáskot)

Sigurður sagði í spjalli við 641.is í morgun að hann væri þegar búinn að leika aukahlutverk í nokkrum auglýsingum sem væri búið að sýna og öðrum sem ætti eftir að koma fyrir almennings sjónir. Hann kæmi væntanlega til með að leika aukahlutverk í einni eða tveimur íslenskum kvikmyndum á næstunni og líklega kæmi hann fram í auglýsingu hjá stóru alþjóðlegu fyrirtæki sem ekki væri búið að frumsýna.

“Kærastan mín dró mig eiginlega út í þetta, en hún tekur þátt í aukaleik. Þannig komst ég í þennan bransa. Ég tók þátt í leiklist með Búkollu hér áður fyrr, svo sem “Á svið”, en ég lék þar sviðstjóra. Einnig lék ég Grana í Stútungasögu og í Skugga Sveini sem Ketill skrækur en það var uppáhalds leikverkið mitt. Ég hef tekið þátt í aukaleik frá áramótum og nokkrum auglýsingum fyrir innlend og erlend fyrirtæki. Stærsta hlutverkið mitt hingað til er einmitt þessi auglýsing fyrir þessa kjúklingabita keðju í suður-afríku”,sagði Sigurður í spjalli við 641.is.

Auglýsinguna má skoða hér fyrir neðan.