Sigurður Erlingsson ráðinn sparisjóðsstóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

0
901

Sigurður Erlingsson hefur verið ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ses.

Sigurður er viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði frá Andrews University í Bandaríkjunum (1994), með próf í verðbréfamiðlun (1998), með M.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál (2003) og MBA frá Háskólanum í Reykjavík (2010).

Síðastliðin þrjú ár hefur Sigurður starfað sem fjármálastjóri HEKLU hf bílaumboðs og setið í framkvæmdastjórn félagsins. Á árunum 2010-2015 var Sigurður forstjóri Íbúðalánasjóðs og tókst þar giftusamlega á við flókin verkefni í kjölfar bankahrunsins og kom leigufélaginu Klett á fót sem var með leigueignir um allt land.  Sigurður starfaði hjá Landsbanka Íslands hf. frá 2000-2008, fyrst sem sérfræðingur í greiningardeild en lengst af sem forstöðumaður á alþjóðasviði bankans. Frá 2008-2010 starfaði Sigurður sem verkefnastjóri í fjárhagslegri endurskipulagningu stærri fyrirtækja hjá NBI hf. Sigurður hefur einnig starfað sem millistjórnandi á fjármálasviði fyrirtækja, við ráðgjöf, og setið í stjórnum fyrirtækja og félagasamtaka.

Sigurður hefur verið stundakennari í fjármálanámskeiðum bæði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og við Opna Háskólann í HR frá 2001, þar sem hann hefur m.a. kennt og verið prófdómari í námi í verðbréfaviðskiptum.

Sigurður hefur yfirgripsmikla reynslu á fjármálamarkaði, fjármálastarfsemi og fjármálum fyrirtækja. Hann hefur mikla reynslu af útlánastarfsemi, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Þá hefur hann leitt og komið að fjárhagslegri endurskipulagningu hjá fjölda fyrirtækja. Hjá Landsbankanum var hann í erlendri fjármögnun bankans, alþjóðlegum bankasamskiptum, greiðslumiðlun og samskiptum við lánshæfimatsfyrirtæki.

Sigurður er giftur Nönnu Guðnýju Sigurðardóttur sjúkraþjálfara sem starfar sem gæðastjóri Hrafnistuheimilanna og saman eiga þau tvo drengi.

Sigurður mun hefja störf hjá sparisjóðnum á næstu dögum.

Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses. er ein elsta fjármálastofnun landsins en hann varð til við sameiningu fimm sparisjóða í Suður-Þingeyjarsýslu. Sá elsti þeirra, Sparisjóður Kinnunga, var stofnaður árið 1889. Hinir voru Sparisjóður Aðaldæla, Sparisjóður Fnjóskdæla, Sparisjóður Mývetninga og Sparisjóður Reykdæla.

Aðalstarfstöð Sparisjóðsins er á Laugum í Reykjadal en að auki eru starfræktar tvær starfsstöðvar, annars vegar í Reykjahlíð, Mývatnssveit en hins vegar á Garðarsbraut, Húsavík. Samkvæmt samþykktum sjóðsins telst starfssvæði hans vera Þingeyjarsýslur þó viðskiptavinir sjóðsins séu dreifðir um allt land. Samkvæmt ársreikningi 2019 voru stöðugildi í árslok 2019, 10,5 talsins.

Sparisjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem hefur það hlutverk að stunda svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar. Er það hlutverk hans að standa vörð um og þróa atvinnulíf, mannlíf og velferð svæðisins.

Starfsemi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga byggir á nálægð við viðskiptavini, heiðarleika og trausti, þekkingu á aðstæðum og þörfum viðskiptavina og svæðis, hóflegum vaxtamun, skynsamlegum útlánum og samstarfi við aðra sparisjóði um að hámarka hagkvæmni og þekkingu í starfi sjóðsins.