Seldu 130 skrokka á tveim dögum

0
3936
Jónas Þór Viðarsson glaðbeittur í Matarskemmunni á Laugum

Hjónin Jónas Þór Viðarsson og Salbjörg Mattíasdóttir sauðfjárbændur í Árdal í Kelduhverfi, stóðu frammi fyrir mjög mikilli afurðaverðslækkun á lambakjöti eins og aðrir sauðfjárbændur í landinu nú í haust. En Jónas Þór og Salbjörg dóu ekki ráðalaus. Þau ákváðu að vinna allt kjötið sjálf og taka sölumálin í sínar eigin hendur og tókst þeim að selja alla sína lambakjötsframleiðslu á aðeins tveim dögum, alls 130 skrokka.

Jónas Þór sagði í spjalli við 641.is nú í kvöld að öllum lömbunum hefði verið slátrað hjá Norðlenska á Húsavík eins og áður, en þetta árið hefðu þau tekið alla skrokkana heim og unnið þá og pakkað til sölu í Matarskemmunni á Laugum í Reykjadal. Þrátt fyrir að vinnslan á Laugum sé í um 90 kílómetra fjarlægð frá Árdal reiknaðist Jónasi það til að þau hefðu fengið meira en 100% hærra verð fyrir hvert kíló af dilkakjötinu miðað við verðskrá Norðlenska, að frádregnum öllum tilkostnaði. Árdalur.is

Í myndbandi, sem birt var nú í kvöld á facebooksíðu Árdals, útskýrir Jónas Þór það nánar.