Seglskipið Donna Wood kemur til hafnar á Húsavík í dag

0
167

Seglskipið Donna Wood kemur til hafnar á Húsavík í dag, sunnudaginn 17. maí. Af því tilefni er gestum og gangandi boðið að skoða skipið og jafnframt þiggja léttar veitingar á hafnarveitingastaðnum Gamla Bauk kl. 16. Skipið sem keypt var í Danmörku nýlega er nýjasta viðbótin, áttunda skip Norðursiglingar og fjórða seglskipið. Fjórir eikarvélbátar eru einnig gerðir út í hvalaskoðun. Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá Norðursiglingu

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Donna Wood

 

Donna Wood er 31,2m langt (LOA-heildarlengd) tvímastra eikarskip og var smíðað árið 1918. Skipið var í áratugi notað sem vitaskip við strendur Danmerkur þar til því var breytt í farþegaskip árið 1990.

 

 

Donna Wood er búin 7 káetum fyrir 12 farþega og borðsal fyrir 24 og hentar því einstaklega vel í ævintýraferðir.

Þrátt fyrir umtalsverðan vöxt í hvalaskoðun fyrirtækisins frá Húsavík árið 2014 hefur vöxtur orðið enn hraðari í ævintýraferðum Norðursiglingar. Það á ekki síst við um ferðir um Scoresbysund á Grænlandi, þar sem tvær skútur, Ópal og Hildur voru starfræktar síðasta sumar.

 

Norðursigling er fjölskyldufyrirtæki, stofnað á Húsavík árið 1995 og var með fyrstu fyrirtækjum á Íslandi til að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir. Frá upphafi hefur fyrirtækið vaxið jafnt og þétt, farþegum hefur fjölgað ört frá ári til árs og bátum hefur fjölgað úr einum í átta. Allir bátarnir eru gamlir eikarbátar. Auk hvalaskoðunar rekur Norðursigling veitingastaðinn Gamla Bauk, kaffihúsið Hvalbak og Húsavíkurslipp. Setur starfsemi Norðursiglingar mikinn svip á hafnarsvæði Húsavíkur. Starfsfólk er á bilinu 15-20 manns yfir vetrartímann en talan fer allt upp í 120 manns yfir sumartímann. Norðursigling hefur hlotið ýmsar viðurkenningar í gegnum árin og uppfyllir opinbera öryggisstaðla.

Sjá myndir hér