Sefþvari sést við Laugar

0
245

Í morgun sá Guðmundur Smári Gunnarsson kennari á Laugum sérkennilegan fugl sem hann ekki þekkti á göngu við tjörnina á Laugum. Hann tók því myndir af fuglinum og sendi á Yann Kolbeinsson fuglafræðing á Náttúrustofu Norðausturlands. Yann greindi fuglinn af myndunum sem sefþvara (Botaurus stellaris).

Sefþvari við Lauga í dag. Myndina tók Yann Kolbeinsson
Sefþvari við Lauga í dag. Myndina tók Yann Kolbeinsson. (smella á myndina til að skoða stærri útgáfu)

Sefþvarar eru hegraættar, tiltölulega stórir (70-80 cm langir), brúnleitir og rákaðir. Litur og rákamynstur tekur mið af því að þeir eigi auðvelt með að fela sig í sefi eða stórvöxnu grasi. Heimkynni þeirra er um miðbik Evrópu, austur til Asíu. Yann fékk með sér fuglaáhugamennina Gauk Hjartarson og Má Höskuldsson til að leita fuglsins sem þeir fundu eftir nokkra leit. Þeir félagarnir skoðuðu fuglinn og mynduðu en skildu svo við hann í rólegheitum svo hann fengi frið til fiskveiða.

Þetta er aðeins í sjötta sinn sem þessi sjaldgæfa hegrategund sést hérlendis. Fyrsti fuglinn fannst raunar á Húsavík á fjórða áratug síðustu aldar, einmitt á svipuðum árstíma. Þriðjungur athugana af sefþvörum á landinu er því þingeyskur. Ekki er ósennilegt að þessi fugl hafi borist til landsins í þrálátum austanáttum janúarmánaðar eins og fleiri flækingsfuglar sem nú eru á ferðinni.