Sauðfjárrækt á krossgötum

0
2310

Þar sem ég hef átt sæti í Markaðsráði kindakjöts (MK) síðustu misseri ætla ég að gera aðeins grein fyrir hvernig vandamál sauðfjárræktarinnar horfa við mér.

Vandamálið er í sjálfum sér einfalt og öllum ljóst, það er framleitt meira en selst á viðunandi verði.

Okkur hjá MK var það ljóst fyrir um það bil ári síðan, og kannski fyrr, að það stefndi í óefni. Það spáði þó enginn því að krónan styrktist jafn mikið og raunin varð. Það hefur magnað vandamálið enn frekar. Rekstur hjá sláturleyfishöfum hefur verið afleitur síðustu tvö ár og því augljóst að eitthvað hlýtur að láta undan. Ég efast ekki um að sláturleyfishafar leita allra leiða til að hagræða í sínum rekstri.  Ætli tapið í þessum geira á árunum 2015 og 2016 sé ekki á annan milljarð. Við höfum reynt að stuðla að því allt síðasta ár að það sé létt á birgðastöðu og lagt til þess fjármuni sem óráðstafaðir voru í sauðfjársamningi. Einnig kom sérstakt framlag frá ríkinu í þetta verkefni. Þrátt fyrir þessa meðgjöf tókst ekki að flytja út eins og við höfðum vonast til. Það segir heilmikið um ástandið á þessum mörkuðum. Þó er rétt að geta þess að það er jákvæð þróun akkúrat núna varðandi gengið. Það hefur einnig verið unnið markvist að því að auka sölu á lambakjöti til ferðamanna. Það hefur þó enn sem komið er ekki skilað sér í stóraukinni sölu. Sala á lambakjöti fyrstu sjö mánuði þessa árs er nánast sú sama og og fyrstu sjö mánuði síðasta árs.

En hvað er til ráða??

Ef ekki selst meira þá er augljóst að það þarf að fækka fé og það verulega. Þá kemur að því að velta fyrir sér hvernig á að fara í þá fækkun. Einn kosturinn er að það gerist bara stjórnlaust þannig að þeir bændur sem fyrstir fara á hausinn hætti. Það virðist líklegasti kosturinn í dag og sennilega sá alversti.

Annar kostur er að reyna fækka fé á ákveðnum svæðum. Þar mætti nefna  sérstaklega svæði sem hafa möguleika á annarri atvinnuuppbyggingu.

Það mætti velta fyrir sér að fækka á þeim svæðum sem standa gróðurfarslega veikast, svæðum þar sem er verulegt landgræðslustarf í gangi. Hægt væri að hugsa sér að herða enn á því landgræðslustarfi og ná skjótari árangri en nú, með minni beit.

Það mætti velta fyrir sér  að hætta sauðfjárrækt á svokölluðum jaðarsvæðum, þar sem einhverjir halda því fram að þar muni byggð hvort sem er leggjast af á næstu 10 til 20 árum.

Það mætti velta fyrir sér að allir fækkuðu með því að skera úr meirihluta þeirra áa sem í eðlilegu ástandi færu í sláturhús á næsta ári. Það væri svona biðleikur í stöðunni.

Enginn af þessum kostum leysir þó þann vanda sem þarf að glíma við á næstu 12 mánuðum. Það þarf sértækar aðgerðir til að leysa hann.

Allir þessir kostir eru afleitir nema kannski sá síðasti og mundu hafa mikil áhrif á byggð og mannlíf. Það eru til þorp á landinu sem standa og falla með því að það sé stunduð sauðfjárrækt í þeirra héraði.

Aðeins um sauðfjársamning. Uppleggið í síðasta sauðfjársamningi var að fá meiri fjármuni inn í greinina fyrir vöruna sem við erum að framleiða. Þar var fyrst og fremst horft til útflutnings í maga ferðamanna eða á hágæðamarkaði. En þetta er langhlaup en ekki spretthlaup. Fjöldi manna hefur ekki trú á að þetta takist. Ég ætla ekki að lýsa neinni sérstakri skoðun á því hér, en það hlýtur að vera öllum ljóst að það er eina færa leiðin til að halda greininni í óbreyttri mynd. Nú þegar kemur um helmingur af brúttótekjum greinarinnar í gegnum sauðfjársamning. Það er algjörlega óraunhæft að reikna með því að það hlutfall hækki.

Það tala ýmsir um framleiðsluhvata í núverandi sauðfjársamningi. Það er vissulega rétt, en ég minni á að það var ekki fyrr enn í þessari viku sem fyrstu kílóin komu á markað sem framleidd eru undir þessum samningi. Þannig að vandinn er tilkominn áður en áhrifa þessa samnings byrjar að gæta.

Einnig er vert að hafa í huga að meðalaldur sauðfjárbænda er mjög hár og augljóst að fjöldi manna er á leið út úr greininni á næstu árum af þeim sökum.

Þá er vert að minna á eftirfarandi grein samningsins:
15.2    Fram að endurskoðun 2019 er stefnt að því að auka útflutningstekjur af sauðfjárrækt sem leiði til þess að hlutur bænda í heildarverðmætasköpun greinarinnar aukist um 7,5% að lágmarki. Þetta miðast við óbreyttan fjárfjölda í landinu og fast verðlag. Takist það ekki skal niðurtröppun beingreiðslna endurskoðuð.

Ég sé þetta ákvæði þannig að þetta sé í valdi framkvæmdanefnda búvörusamninga og verði gert án atkvæðagreiðslu meðal bænda, enda komi ekki til aðrar verulegar breytingar á samningnum. Það er því miður orðið nokkuð augljóst að þetta markmið næst ekki. Verði þetta gert þannig að niðurtröppun verði stöðvuð til 2023 er að mínum dómi minni framleiðsluhvati í þessum samningi til 2023 en var í þeim gamla, þar sem nýliðunarstuðningur í sauðfjárrækt er mun minni í þessum samningi en þeim gamla. Svo nöturlegt sem það er þá þarf ekki mikla nýliðun akkúrat núna. Það virðist svo vera sígilt og eilíft deiluefni meðal sauðfjárbænda hvort halda eigi í beingreiðslurnar eða ekki, en samningurinn er engu að síður svona og í mínu héraði fara menn yfirleitt eftir samningum.

Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því að  ef þessi framleiðsla á eingöngu að miðast við það sem selst innanlands þá er það fyrsta skrefið í því að leggja endanlega niður sauðfjárrækt á Íslandi.

Að lokum er rétt að halda því til haga að það hafa áður verið sveiflur í rekstrarskilyrðum þessara greinar. Árin upp úr síðustu aldamótum voru ekki mikið betri en núna og ég hygg að ástandið hafi verið enn verra um miðjan tíunda áratuginn. Engu að síður er það þannig að ef boðuð verðlækkun kemur fram í haust þá er öll launagreiðslugeta horfin á fjölda búa.

Einar Ófeigur Björnsson Lóni stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands.