Sauðfjárbændur vilja sanngjörn viðskipti

0
382

Í úttekt sem birt var fyrir helgi á vef Landsamtaka sauðfjárbænda sauðfé.is, kemur fram að afurðaverð til Íslenskra sauðfjárbænda er með því allra lægsta sem þekkist í Evrópu. Í úttektinni kemur fram að Íslenskir sauðfjárbændur fá 604 kr að meðaltali fyrir hvert kíló en td. Franskir sauðfjárbændur fá um 950 krónur að meðaltali fyrir hvert kíló sem er um 60% hærra verð. Í úttektinni var borið saman verð í nokkrum löndum í Evrópu og kom það nokkuð á óvart hve lélegt verð Íslenskir sauðfjárbændur eru að fá fyrir sínar afurðir miðað við starfsbræður sína í Evrópu. Eftirfarandi tafla sýnir kílóverð á lambakjöti til bænda í nokkrum Evrópulöndum í íslenskum krónum og þar sést að aðeins Pólskir bændur fá lægra afurðaverð fyrir sitt kjöt en þeir Íslensku.

Tafla 1
Tafla 1 (smella á til að stækka)

Í öllum þeim löndum sem úttektin náði til fá bændur meira en 700 krónur að meðaltali fyrir kílóið (fyrir utan Pólland og Ísland) og í þremur þeirra fá bændur yfir 800 krónur á kílóið.(Bretland, Svíþjóð og Frakkland) Fram kemur að meðaltalsverð 25 Evrópuríkja er í kringum 750 krónur á kílóið, eða næstum því heilum 150 krónum hærra en íslenskir sauðfjárbændur fá í sinn hlut. Meðalverð sem greitt var í fyrra til Íslenskra sauðfjárbænda var kr. 603,7 á kíló, eins og áður segir. Útlit er fyrir að það standi í stað eða jafnvel lækki á sama tíma og sala eykst og framboð stendur í stað eða jafnvel minnkar.

Norðlenska birti sína verðskrá fyrir helgi og er hún óbreytt frá verðinu sem gefið var út í fyrra. Fleiri afurðastöðvar hafa birt verðskrá og eru þær á sömu lund. Verið stendur í stað. Landssamtök sauðfjárbænda telja að afurðarverð sé a.m.k. fjórðungi of lágt. Óhætt er að taka undir það.

Milliliðirnir taka stóra sneið af kökunni.

Á sauðfé.is segir einnig að hærra verð til bænda í Evrópu þýði hins vegar ekki að verð til neytenda í Evrópu sé endilega hærra. Bændur í Evrópu fá einfaldlega stærri hluta af útsöluverðinu til sín. Í Bretlandi fá bændur t.d. á milli 50% og 60% af endanlegu útsöluverði í sinn hlut. Algengt er að Íslenskir bændur fái sem nemur á bilinu 25% til 41% af endanlegu útsöluverði. Þegar tekið hefur verið tillit til 11% virðisaukaskatts þýðir þetta að milliliðir; sláturhús, kjötvinnslur og verslanir taka á bilinu 49% til 65% af endanlegu útsöluverði á lambakjöti til sín. Sjá skýringamynd hér fyrir neðan.

Tafla 2. (smella á til að stækka)
Tafla 2. (smella á til að stækka)

Nú er það svo að afurðastöðvarnar rétt skrimta og eru ekki að skila milljarða hagnaði. Norðlenska velti um 5 milljörðum á árinu 2014 en var rekið með 50 milljón króna tapi. En þegar hagnaður td. Haga á sl. ári er skoðaður slagar hann hátt upp í veltu Norðlenska, eða tæpir fjórir milljarðar króna á síðasta ári. Af þessum tölum að dæma verður að telja það líklegt að sneið smásalanna af kökunni sé of stór og er sennilega til kominn vegna óhóflegrar álagningar. Ef afurðarstöðvarnar væru að taka of mikið til sín ætti það að skila sér í góðum hagnaði þeirra ár eftir ár. Svo er ekki.

Af hverju er þetta svona ?

Nú er það svo að bændur eiga í flestum tilfellum afurðastöðvarnar sjálfir og ættu því að geta greitt sjálfum sér hærra verð. En samt er það ekki raunin. Hvað veldur því ? Jú. Svarið er einfaldlega það að vegna gríðarlegrar stærðar tveggja helstu smásalanna þrúkka þeir verðið niður. Þegar aðilar sem ráða 80% af öllum smásölumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu, beita sér með þessum hætti, geta afurðastöðvarnar ekki annað en að tekið því verði sem boðið er og hætta ekki á að sitja uppi með kjöt sem þeir geta ekki selt. Aðgangur að markaðnum á höfuðborgarsvæðinu skiptir öllu máli. Ein af afleiðingunum af þessu er sú að ekki er hægt að bjóða bændum hærra verð en raunin er.

Þegar neytandinn sér svo verðmiðann á lambakjötinu í búðunum, þegar búið er að leggja á óhóflega mikið á vöruna, bölvar hann helvítis bændunum og kennir þeim um hátt verð. Er það sanngjarnt ?

Eru þetta sanngjörn viðskipti ?

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri.

 

Sláturfé getur fallið í meira en 30 flokka eftir aldri, kyni, gæðum, fituhlutfalli o.s.frv. Hér er miðað við flokkinn R3 sem er algengasti flokkur sláturlamba (kr. 572 pr. kg). Að auki greiða sum sláturhús tímabundið álag til að stýra því hvenær fé kemur til slátrunar. **Meðaltalskílóverð að öllu þessu virtu haustið 2014 var 603,7 kr. Verð til bænda er ekki sundurgreitt eftir bitum eða hlutum lambsins. Miðað við 16,2 kg lamb fengust í fyrra að meðaltali kr. 9.780 (603,7×16,2). Þetta verð innifelur, allt kjöt, gærur, innmat o.s.frv. sauðfé.is

Sjá úttektina á sauðfé.is