Samvinna og skynsemi varða veginn fram á við

0
67

Fyrir fjórum árum fékk góður hópur fólks úr Norðausturkjördæmi mig til að hefja þátttöku í stjórnmálum. Tók ég áskorun þeirra eftir ferðalag um kjördæmið þar sem ég upplifði að sá uppbyggingar- og félagsandi sem lagði grunninn að Framsóknarflokknum var enn sterkur í kjördæminu. Það var einstök upplifun að hitta allt þetta fólk sem hafði eindregna löngun til að láta gott af sér leiða og gaf eigin tíma og vinnu til að bæta samfélagið á grundvelli samvinnu og skynsemi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Í Norðausturkjördæmi eru rætur þeirra hugsjóna sem gerðu sögu Íslands að einni mestu framfarasögu heims á 20. öld. Þau gildi og það hugarfar er líka best til þess fallið að tryggja farsæld Íslendinga á 21. öldinni.

Undanfarin ár höfum við Framsóknarmenn talað um að Íslendinga bíði stórkostleg tækifæri til framtíðar. Þau tækifæri sem við höfum rætt mest um er að finna í Norðausturkjördæmi. Matvælaframleiðslu, iðnað, ferðaþjónustu og olíuvinnslu, auk þeirrar gríðarmiklu starfsemi sem fylgt getur norðurslóðasiglingum. Fái Norðausturkjördæmi frelsi og stuðning frá stjórnvöldum til að nýta þessi tækifæri mun renna upp nýtt framfaraskeið fyrir landið allt.

Á þessu kjörtímabili hafa Framsóknarmenn verið í varnarhlutverki og hefur tekist að koma í veg fyrir gríðarstór og óafturkræf mistök við stjórn landsins. Íslendingar hafa því enn eigin örlög í höndum sér. Eftir kosningar gefst okkur vonandi tækifæri til að leiða sóknina og berjast fyrir nýtingu tækifæranna svo Íslendingar allir fái notið þeirrar velsældar sem landið og þjóðin geta leyst úr læðingi fái skynsemi, samvinna og rökhyggja að vísa veginn.

Ég á Framsóknarfólki í Norðausturkjördæmi mikið að þakka og vonast til að fá tækifæri til að endurgjalda fólki í kjördæminu það traust sem það sýndi mér. Því gef ég nú kost á mér í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Ég mun vinna að því að auka velferð íbúa kjördæmisins og landsins alls og stuðla að því að kjördæmið njóti sannmælis í samræmi við þá miklu verðmætasköpun sem það skilar þjóðarbúinu. Framlag Norðausturkjördæmis til samfélagsins er slíkt að það á að njóta þess, m.a. í betri heilbrigðisþjónustu, menntun, og samgöngum.

Ísland stendur frammi fyrir gríðarstórum tækifærum, ekki síst í Norðausturkjördæmi. Ef sú framfarahugsjón sem hingað rekur rætur sínar kemst til áhrifa eftir kosningar aukast möguleikar á nýju efnahagslegu og samfélagslegu framfaraskeiði. Það kennir okkur reynsla fortíðarinnar. En mestu máli skiptir að saman getum við lagt grunninn að aukinni velferð Íslendinga á nýrri öld Framsóknar.

Með innilegu þakklæti,

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson