Samgönguráðstefna Norðurhjara í Skúlagarði

0
89

Norðurhjari ferðamálasamtök boða til ráðstefnu um samgöngur og ferðamál sem haldin verður þriðjudaginn 29. september nk. í Skúlagarði í Kelduhverfi og hefst kl.13:00. Samgöngur hafa mikil áhrif á þróun byggðar og atvinnuvega. Norðurhjari – ferðaþjónustusamtök leggja mikla áherslu á bættar samgöngur inn á starfssvæði samtakanna, sem er frá Kelduhverfi austur á Bakkafjörð.

Skúlagarður
Skúlagarður

Vegur 862 frá Ásbyrgi upp í Vesturdal, í Hólmatungur og upp að Dettifossi er mjög mikilvægur fyrir þróun ferðamennsku á svæðinu, því ferðamenn koma nú frá Mývatni niður að Dettifossi en snúa þar við vegna þess að vegurinn er slæmur og jafnvel ófær, eða lokaður vegna aurbleytu. Hann er líka öryggismál fyrir ferðamenn og íbúa, og um leið byggðaþróunarmál. Ávinningurinn af veginum verður mikill og margþættur.
Mikilvægt er að leggja bundið slitlag á veginn á Brekknaheiði og í Bakkafirði og gera þannig norðausturveg 85 allan bundinn slitlagi. Í þeirri hringleið (Mývatn, Vopnafjörður, Þórshöfn, (Raufarhöfn), Hófaskarð, Kópasker, Húsavík) liggja miklir möguleikar.

Þá má nefna veginn út að Rauðanúpi og fyrir Sléttu sem ferðamenn nota í vaxandi mæli, en fær litla sem enga þjónustu eða viðhald. Hið sama má segja um flugsamgöngur og netsamband á svæðinu.

Framsögu hafa;

  • Höskuldur Þórhallsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar
  • Hreinn Haraldsson forstjóri Vegagerðarinnar
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor við Háskólann á Akureyri
  • Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings
  • Fulltrúi ferðaþjónustuaðila innan Norðurhjara