Sameiningar sveitarfélaga

0
550

Nýverið ritaði Ari Teitsson áhugaverða grein um sameiningar sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum sem birtist í Skarpi og samhliða á vefmiðlinum 641.is. Ari er
framsýnn maður og þau sjónarmið sem hann varpar fram allrar skoðunar verð.

Hvað er gott samfélag?

Gæði samfélags markast af æði mörgu. Ari tiltekur sterkan byggðakjarna með
grunn- og framhaldsskóla, öflugt og drífandi fólk, sterka stjórnsýslu,
sameiginlegt íþróttastarf og öfluga heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Allt er
þetta rétt, en ýmislegt fleira kemur þó til. Má þar nefna ríkt og líflegt
menningarstarf, fjölbreytt atvinnutækifæri, öflugar sveitir, styrkar samgöngur
og innviði sem raunar eru í æ ríkari mæli forsenda búsetuskilyrða og
framtíðarmöguleika fólks á öllum aldri.

Hugsanleg sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar

Á vordögum skipuðu sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar
samstarfsnefnd fulltrúa beggja sveitarfélaga sem falið var það verkefni að
kortleggja hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna tvegga. Til verksins voru
ráðnir ráðgjafar sem meðal annars hafa komið að sameiningu Sandgerðis og
Garðs sem og sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sem samþykkt
var nýverið. Samhliða var blásið til verkefnisins Nýsköpunar í norðri sem ætlað
er að greina tækifæri svæðisins til uppbyggingar og þróunar í nánu samráði
við íbúa. Andi verkefnisins er á þá leið að skoðað verði með hvaða hætti megi efla
búsetuskilyrði, stjórnsýslu og kraft samfélagsins. Í þeirri vegferð þarf að skoða
fjölmargt:

Hvernig tryggjum við íbúunum betri enn þjónustu og framúrskarandi
búsetuskilyrði?

Hvernig aukum við kraft samfélagsins til að takast á við áskoranir framtíðar?

Hvernig sköpum við svæðinu sérstöðu?

Samhliða þarf svo að leita lausna við ýmsum krefjandi viðfangsefnum, ekki
síst hvað varðar stærð svæðisins. Sameinað sveitarfélag, komi til sameiningar,
yrði það stærsta á landinu og næði yfir rétt um 12% landsins. Í því samhengi
þarf að huga vandlega að þeim tækifærum sem felast í tækniþróun og leita
þarf lausna sem tryggja jafnvægi byggðakjarna og dreifðra sveita. Í þeirri
vegferð mun skapast verðmæt þekking sem nýst getur til framtíðar í víðara
samhengi.

Núverandi staða í Þingeyjarsýslum

Núverandi staða í Þingeyjarsýslum er sú að engin sveitarfélög utan
Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa opinberað sameiningarviðræður.
Það er því rétt sem Ari nefnir í grein sinni að svo virðist sem Þingeyingar ætli
að stórum hluta að sitja hjá. Þó má ætla að framlögð þingsályktunartillaga um
eflingu sveitarstjórnarstigsins ýti við einhverjum fulltrúum að skoða af festu
þau mál.

Framtíðin

Færa má rök fyrir því að jafnvel þó öll sveitarfélög í Þingeyjarsýslum yrðu
sameinuð þá yrði það ekki nægilega sterkt til að standa undir því sem að ofan
er ritað. Þá má velta því fyrir sér hvort ef til vill þyrfti að hugsa enn lengra.
Yrði sameinað Norðausturland frá Siglufirði til Bakkafjarðar ef til vill það sem
til þarf?

Skoðanir á þessu eru skiptar, en líklega deilum við öll þeirri sýn að vilja sjá
okkar svæði vaxa og dafna. Þá stendur eftir spurningin hvernig svo megi
verða. Ætti slíkt að gerast í stórum skrefum í þeim anda sem Ari skrifar, eða
er skynsamlegt að taka smærri skref og læra jafnóðum af reynslunni?
Í öllu falli er valdið íbúanna sem kjósa sér fulltrúa til að leiða sveitarfélögin.

Hlutverk okkar sem kjörin eru, er að marka framtíðarsýn á grunni bestu
mögulegu þekkingar af heilindum og virðingu og leggja í dóm kjósenda.

Helgi Héðinsson
oddviti Skútustaðahrepps

(Grein þessi birtist fyrst í Skarpi í dag)