Sameining! Af hverju, af hverju ekki?

Sveitarstjórnarfólk Framtíðarlistans skrifa

0
762

Á fundum sveitarstjórna Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps þann 13. júní sl. var samþykkt að skipa sameiginlega nefnd sem mun ásamt íbúum kanna kosti og galla þess að sameina sveitarfélögin. Í svona vegferð er mikilvægt að draga fram þau tækifæri og þær áskoranir sem felast í mögulegri sameiningu. Nú er það svo að við höfum öll ólíka sýn á hlutina og við búumst ekki við því að fá samhljóma álit fólks á því hvað það vill fá út úr sameiningu þessara frábæru sveitarfélaga, sem er gott!

Við þurfum á öllum sjónarmiðum að halda til að átta okkur á hvort þetta er rétta skrefið að taka . Því hvetjum við íbúa til að taka þátt með því að mæta á þá íbúafundi sem hafa verið boðaðir til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og ekki síður til að kynna sér hvað sveitungarnir telja að æskilegt sé að fá út úr sameiningu.

Fólk á alltaf að geta haft aðgang að sínum kjörnu fulltrúum og við hvetjum ykkur öll til að koma ykkar sýn og skoðunum á framfæri við þá.

Þegar þar að kemur verða það íbúar þessara sveitarfélaga sem taka ákvörðunina um mögulega sameiningu og við vonum að þá getum við öll tekið upplýsta ákvörðun enda verði umræða næstu missera uppbyggileg og málefnaleg.

Jóna Björg, Hlynur og Hanna Jóna.