Safnakvöld í Þingeyjarsýslum

0
318

Í Þingeyjarsýslum er að finna mikinn fjölda af áhugaverðum söfnum og sýningum. Föstudagskvöldið 23. ágúst verður í fyrsta sinn haldið Safnakvöld í Þingeyjarsýslum. Þá munu 14 söfn og sýningar hafa opið frá sjö til tíu um kvöldið og bjóða upp á ýmsa viðburði. Frítt verður inn á allar sýningarnar.

Þverá í Laxárdal.
Þverá í Laxárdal.

Á Snartarstöðum við Kópasker verður handverksfólk að störfum, þar verður m.a. spunnið hrosshár á vinglu og félagar úr Þingeyskum fingurbjörgum kynna handverk sitt sem byggir á þingeyskri handverkshefð.  Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit var stofnað til minningar um fuglaáhugamanninn Sigurgeir Stefánsson, viðtal við hann verður sýnt þar á skjá á safnakvöldinu. Boðið verður upp á lifandi tónlist  á Hvalasafninu á Húsavík, Minjasafninu á Mánárbakka og Samgönguminjasafninu á Ystafelli.   Í Safnahúsinu á Húsavík geta gestir valið milli þess að taka þátt í bóksvari, spurningakeppni með bókmenntalegu ívafi, á vegum bókasafnsins eða fræðast um votplötutækni við myndatöku í fyrirlestri Harðar Geirssonar í sýningarsal á efstu hæð.

Áskell Jónasson á Þverá í Laxárdal
Áskell Jónasson á Þverá í Laxárdal

Gamli bærinn á Þverá í Laxárdal verður opinn gestum, hann er hluti af Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands, í bænum er sýningu um sögu hans. Danshópurinn Vefarinn sýnir þjóðdansa bæði á Þverá og á Grenjaðarstað.  Jóns Kr. Kristjánssonar skólastjóra og fræðimanns verður minnst  í gamla skólahúsinu á Skógum í Fnjóskadal. Í Skjálftasetrinu á Kópaskeri er sumarsýning um ferð Vigfúsar Grænlandsfara þvert yfir Grænlandsjökul. Í Sauðaneshúsi á Langanesi er falleg sýning um lífið á nesinu og í Kiðagili í Bárðardal er áhugverð sýning um útilegumenn.  Gestir Gljúfrastofu í  Ásbyrgi geta fræðst um sultur og sultugerð í kynningu heimamanna.

Þetta er kjörið tækifæri fyrir heimamenn og gestkomandi til að eiga ánægjulega kvöldstund, kynnast þingeysku safnastarfi og njóta fjölbreyttrar dagskrár.  Nánari upplýsingar um dagskrána má finna á www.husmus.is