Safn um könnunarsögu opnar á Húsavík

0
66

Þessa dagana er unnið að uppsetningu nýs safns sem opnar á Húsavík í vor, en þar verður fjallað um könnunarsögu heimsins, landkönnun víkinga, geimferðir, pólfara og fleira. Frá þessu segir á 640.is

Merki Könnunarsögusafnsins á Húsavík
Merki Könnunarsögusafnsins á Húsavík
“Þingeyjarsýslur eiga sterkar tengingar við könnunarsögu heimsins. Hingað komu landkönnuðirnir Garðar og Náttfari og sá síðarnefndi settist hér að og nam land. 1100 árum síðar koma svo hingað til æfinga fyrstu mennirnir sem yfirgefa jörðina til að kanna Tunglið. Þessar tengingar eru merkilegar og vert að gera þeim skil,” segir Örlygur Hnefill Örlygsson, einn af aðstandendum safnsins. Hann segir ferðafólk sýna þessum sögum mikinn áhuga og að mikilvægt sé að fjölga afþreyingarmöguleikum á svæðinu og að þetta safn sé eitt skref í þá átt.