Rusla romsa

0
126

Það hefur valdið mér furðu hvað hljótt er um sorpmál okkar Þingeyinga. Finnst fólki bara allt í lagi að aka rusli vestur í Húnavatnssýslu og grafa það þar ? Finnst fólki allt í lagi að setja niðurklippta runna , nýslegið gras , fiskslóg og beinagrindur eftir úrbeiningar í ruslagáma ? Veit einhver hvað við borgum fyrir hvert kíló úrgangs sem flutt er til Húnvetninga ?

Jónas á Lundarbrekku
Jónas á Lundarbrekku

Dettur sveitarstjórnum ekki í hug að reyna að minka sorpið sem komið er með til förgunar ? Dettur einhverjum í hug að bændur grafi ekki dýrahræ heima hjá sér ? Finnst fólki sjálfsagt að setja lífrænan úrgang í ruslagáma ?

Er fólki alveg sama hvað það borgar fyrir förgun sorps ? Er fólki ljóst að eina leiðin til að halda sorpkostnaði í skefjum er að minnka það sorp sem sett er í ruslagáma.

Það er sáralítil fyrirhöfn að minnka sorp sem fer í ruslagáma um 50%, þarf ekki annað en að grafa tvær eða þrjár holur og láta rotna í þeim lífrænan úrgang , sortera pappír og pappa og fara með í þar til gerða gáma.
Yfir veturinn er hægt að safna lífræna sorpinu í tunnur. Kaffikorgur er þó nokkur hluti sorpsins, veit fólk að kaffikorgur er fyrirtaks hálkuvörn á svell og það er allt í lagi að dreifa kaffikorgi á gróna jörð ?

Svo getur fólk haft hænur sem átu í gamladaga flesta matarafganga. Ég vil gera kröfu um að vikta allan úrgang og borga sorphirðugjöld pr. kíló. Mér finnst óásættanlegt að þeir sem leggja sig fram um að minnka það rusl sem við flytjum dýrum dómum til Húnvetninga, borgi það sama og þeir sem í ruslagáma henda nýslegnu grasi, runnabálkum, beinum ,slógi, gosdósum, matarafgöngum, pappír, mjólkurfernum og mörgu fleiru sem ekkert erindi á vestur í Húnaþing.
Fyrir svo utan að við erum ekkert of góð til að koma sorpbrennslunni á Húsavík í það horf að við getum brennt þar plasti og öðru því sem skynsamlegt er að brenna.

Við verðum að vera borgunarfólk fyrir lifnaðarháttum okkar.  Til dæmis gætum við í Þingeyjarsveit lagt þá fjármuni sem nú fara í snjómokstur á heimreiðum í sorpbrennsluna, það biður okkur enginn að búa hér, við erum ekkert of góð til að bera sjálf þann kostnað sem af búsetu okkar hlýst.

Ég skora á þá sem hyggja á framboð í sveitarstjórnarkosningum í vor að koma með vitrænar tilögur um förgunarmál sorps . Síðustu fjögur ár hefur sveitarstjórn Þingeyjarsveitar ekki talið í sínum verkahring að koma með vitrænar tillögur um förgunarmál sorps, né skólamál. Það væri óskandi að næsta sveitarstjórn komi sér saman um ásættanlegar lausnir í þeim efnum.

Bestu kveðjur. Jónas á Lundarbrekku.