Rúmlega 20% aukning umferðar um Víkurskarð í október

0
140

Umferðin um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á hringveginum jókst um 12,5 prósent í október og hafa aldrei fleiri mælst á ferð um Hringveginn í október. Nú stefnir í að umferðin árið 2015 verði 5,5 prósentum meiri en árið 2014 og með því verður slegið met í umferðinni. Frá þessu segir á vef Vegagerðarinnar. Umferðin jókst um heil 20,8 % um Víkurskarð í nýliðnum októbermánuði borið saman við sama mánuð á síðasta ári. Með þessu var slegið nýtt met í októberumferð um Víkurskarð.

Vegagerðin. Friðleifur Ingi Brynjarsson
Vegagerðin. Friðleifur Ingi Brynjarsson

 

Gamla metið frá okt. 2010 var 945 (bílar/sólarhring) en nýja metið er 1131(bíll/sólarhring). Nú stefnir meðalumferð á dag (ÁDU) í 1355 (bíla/sólarhring) en gamla metið einnig frá 2010 var 1256 (bílar/sólarhring). Gangi það eftir fara rétt tæplega 500 þús. ökutæki um Víkurskarðið í ár.

Umferð um Víkurskarð eykst alla vikudaga en mest á virkum dögum eða 11,1% en 8,2% um helgar.

 

Aukin umsvif vegna framkvæmda við Bakka á Húsavík og Þeistareyki, hagstætt tíðarfar í október, lægra eldsneytisverð og fleiri ferðamenn eru talin vega þungt í þessari aukningu á umferð um Víkurskarð.

Á vef Vegagerðarinnar segir einnig að gríðarleg aukning hafi orðið í umferð á öllum landssvæðum, en mest jókst umferðin um Austurland í október eða um tæp 36%, sem er einsdæmi.