Risa lax veiddist í Laxá í gærkvöld

0
272

Algjör risi, lax í algerri yfirstærð, veiddist á Óseyri í Laxá í Aðaldal (Nessvæðunum) í gærkvöldi. Laxinn var 120 sentimetrar, eða 8 sentimetrum lengri heldur en þeir stærstu til þessa. Talað var um að 112 sentimetra hængarnir hafi daðrað við 30 pundin, en þessi hefur náð þeim áfanga án nokkurs vafa og vel það. Frá þessu segir á vefnum Vötn og veiði.is í dag.

Risinn. Mynd: Vötn og veiði.is
Risinn. Mynd: Vötn og veiði.is

Veiðimaðurinn var Eðvarð Franklín Benediktsson og með honum á stönginni var Ingvar Þorvaldsson. Þeir kapparnir eru komnir af léttasta skeiði og voru án leiðsögumanns. Þeir þurftu að elta skepnuna hálfan kílómeter niður með á og voru svo búnir á því að þeir komu laxinum í háfnum aðeins með harmkvælum upp á bakkann, svo þungur var hann og svo harkalega braust hann um. Laxinn tók Demants útgáfuna af flugunni Frigga, ½ tommu, flugan er hönnuð af Baldri Hermannssyni. Laxinn var mældur 120 sentimetrar og var það örugg mæling, en laxinn lét illa að stjórn er þeir reyndu að taka ummálsmælingu, náðu 58 sentimetrum en voru ekki vissir um að þeir hafi verið á breiðasta staðnum. Létu þó þar við sitja.

Sjá nánar á Vötn og veiði.is