Reynt að opna á Möðrudalsöræfum þegar færi gefst til

0
96

Í næstu viku er áfram spáð umhleypingasömu veðri og mun Vegagerðin reyna að nýta alla þá daga sem gefast til að opna Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði og verða upplýsingar um stöðu mála hverju sinni birtar á heimasíðu Vegagerðarinnar og veittar í síma 1777 . Frá þessu er sagt á vef vegagerðarinnar í dag.

Skjáskot úr vefmyndavél vegagerðarinnar í dag.
Skjáskot úr vefmyndavél vegagerðarinnar í dag.

 

Veðurhorfur fyrir næstu daga eru eftirfarandi:

Hægviðri framan af deginum í dag (8. mars) og bjart, en versnar mjög eftir hádegi. Hríðarkóf frá miðjum degi að telja og NA átt, allt að 18 m/s. Setur niður talsverðan snjó fram á kvöldið. Ekki er ólíklegt að það nái að blota upp úr Jökuldalnum og binda þar niður snjóinn, en mun síður þar sem vegur liggur hærra.

 

Snýst í N-átt og sunnudag og síðar NV, nokkuð hvassa með skafrenningi og minni háttar snjókomu eða éljum fram á kvöldið að lægir um stund fram á mánudag.

Eftir aðra helgi er von til að veður róist mikið, N-átt verður þó ríkjandi en óvissa er um eðli og gerð þeirrar N-áttar sem þarna er spáð.

Miðað við þetta er ekki líklegt að veður á Fjöllunum taki að róast að nokkru gagni fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu helgi (17. mars) og er vonast til að eftir það komist vetrarþjónusta á þessu svæði í eðlilegt horf. Fram að þeim tíma verður reynt að nýta þá daga sem gefast til opnunar, segir á vef vegagerðarinna í dag.