Rekstrarniðurstaða Þingeyjarsveitar jákvæð um 28,9 milljónir

0
87

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2014 var lagður fram til síðari umræðu ásamt endurskoðunarskýrslu KPMG á 169. sveitarstjórnarfundi Þingeyjarsveitar 30. apríl sl. Frá þessu segir á vef Þingeyjarsveitar.

logo Þingeyjarsveit

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var jákvæð um 28,9 millj.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 28,2 millj.kr. neikvæðri  rekstrarniðurstöðu.

 

Á heildina litið er jákvætt frávik frá áætlun 57,1 millj.kr. í samanteknum ársreikningi A og B hluta. Frávikið skýrist af hærri tekjum og lægri fjármagnsgjöldum en áætlað var sem og aðhaldi í rekstri. Veltufé frá rekstri er jákvætt um 58,7 millj.kr. og handbært fé frá rekstri 50,5 millj.kr. Heildarskuldir eru 574,3 millj.kr. og skuldahlutfall – skuldir/rekstrartekjur A og B hluta er 61,9% í árslok 2014 en þetta hlutfall var 61% í árslok 2013. Til viðmiðunar skulu sveitarfélög, samkv. sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011, takmarka skuldir A og B hluta við 150% af reglulegum tekjum. Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2014 samþykktur samhljóða og undirritaður.

 

Fulltrúar T lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Þó það sé ánægjulegt að sveitarfélagið skili jákvæðri afkomu fyrir árið 2014 ber að benda á að þeir þættir sem gera afkomuna jákvæða að nánast öllu leyti eru einskiptiliðir sem ekki er hægt að byggja rekstur sveitarfélagsins á. Þarna er um að ræða framlög Jöfnunarsjóðs, efnis- og landsala á Þeistareykjasvæðinu og síðan lægri verðbólga á árinu 2014 heldur en gert var ráð fyrir í áætlun ársins. Framlög jöfnunarsjóðs eru t.d. tæpum 35 milljónum hærri en ráð var fyrir gert. Að þessu upptöldu er ljóst að rekstur sveitarfélagsins er í járnum líkt og fyrr og eðlilegt er að gæta aðhalds og fara í heildstæða skoðun á útgjöldum sveitarfélagsins. Við lýsum yfir fullum vilja til að koma að slíkri endurskoðun.

Fulltrúar A lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Við fulltrúar A lista ítrekum ánægju okkar með niðurstöðu ársreikninga og teljum þá sýna ótvíræð batamerki í rekstri sveitarfélagsins. Þó ákveðin framlög úr Jöfnunarsjóði hafi hækkað eru önnur lægri en gert var ráð fyrir. Framlög úr Jöfnunarsjóði eru ekki einskiptistekjur, þó heildarupphæð þeirra sé alltaf ákveðinn óvissuþáttur. Eins eru efnisgjöld á Þeistareykjum greidd samkvæmt samningi og því ekki einskiptistekjur. Fulltrúar A lista ítreka þakkir sínar til starfsfólks sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf og aðhald í rekstri. 

Ársreikningur Þingeyjarsveitar 2014.

Fundargerð 169. fundar

Fundargerð 168. fundar