Reglugerð um bann við notkun erfðabreytts fóðurs í sauðfjárrækt hefur tekið gild

0
122

27. október sl, tók gildi ný reglugerð um bann við notkun erfðabreytts fóðurs í sauðfjárrækt og verður þar með framleiðanda (bónda) eða umráðamanni sauðfjár óheimilt að fóðra sauðfé með erfðabreyttu fóðri hér eftir. “Við höfum verið að ýta á eftir því að þessi reglugerð yrði sett, því með henni hefur íslensk sauðfjárrækt sóknarfæri til að undirstrika sérstöðu sína” sagði Þórarinn Ingi Pétursson formaður Landsamtaka sauðfjárbænda í spjalli við 641.is í dag.

Á sauðburði
Frá sauðburði

Ekki er óalgengt að sauðfjárbændur og kanski sérstalega þeir bændur sem eru með blönduð bú, fóðri sauðfé sitt á nautgripafóðri, en það getur innihaldið í einhverjum tilfellum innihaldsefni úr erfðabreyttum lífverum og því þurfa sauðfjárbændur að vera vakandi fyrir því og verða sér úti um upplýsingar um hvort það fóður innihaldi innihaldsefni úr erfabreyttum lífverum.

Sauðfjárbændur þurfa sjálfir að skrá öll fóðurkaup sín vegna gæðastýringar og í gegnum hana verður hægt að sjá hvort sauðfjárbændur uppfylli þessar kröfur um bann við fóðrun sauðfjárs á erfðabreyttu fóðri.

Fari einhverjir bændur ekki eftir þessum reglum geta þeir átt það á hættu að falla út úr gæðastýringunni. Markmið reglugerðarinnar er að auka samkeppnishæfni íslenskra sauðfjárafurða og átti Þórarinn Ingi ekki von á öðru en að sauðfjárbændur komi til með að fara eftir henni.

Nú þegar geta sauðfjárbændur keypt fóður sem er ekki framleitt úr eða inniheldur innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum, hjá fóðursölum eins og t.d. Bústólpa, Líflandi og SS, svo að einhverjir séu nefndir.

Hólmgeir Karlsson framkvæmdastjóri Bústólpa á Akureyri sagði í spjalli við 641.is að allar tegundir af kjarnfóðri sem fyrirtækið framleiddi og væru ætlaðar fyrir sauðfé, væru ekki úr innihaldsefnum sem væru framleidd úr erfðabreyttum lífverum og svo hefði verið lengi. Einnig framleiðir Bústólpi kjarnfóður fyrir kýr sem inniheldur ekki innihaldsefni sem væri framleitt úr erfðabreyttum lífverum.

Skoða má reglugerðina hér