Ráðist á skólameistara FL – Atvikið kært til lögreglu

0
188

„Þetta var nú minniháttar og ekkert alvarlegt. Ég er aðeins marinn og aumur á bak við eyrað,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari Framhaldsskólans á Laugum, sem lenti í leiðindaatviki í skólanum á miðvikudag. Fyrrverandi nemandi var þar kominn til að sækja eigur sínar af heimavistinni. Nemandinn, ónefnd stúlka, taldi að eitthvað vantaði upp á og brást kærasti hennar hinn versti við og réðst á skólameistarann. Frá þessu segir í DV í dag.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Sigurbjörn Árni Arngrímsson

„Kærastinn vildi meina að ég og skólinn bærum ábyrgð á þessum eigum sem vantaði og þau töldu þær vera þarna í öðru herbergi,“ segir Sigurbjörn, sem einnig er þjóðþekktur fyrir stórbrotnar lýsingar sínar á frjálsíþróttum í Ríkissjónvarpinu.

„Ég fékk leyfi til að fara þar inn og þar fannst eitthvað af þessu dóti. Í kjölfarið kom til orðaskipta og ryskinga milli herbergiseiganda og þessa fyrrverandi nemanda. Drengurinn [kærastinn, innsk. blm.] var búinn að segja við mig fyrir að ef til ryskinga kæmi þá myndi hann slá mig fyrir hvert högg sem hann fengi. Því ég bæri ábyrgð á öllu saman. Þegar ég kem fram úr þessu herbergi og er að afhenda henni eigur hennar þá stekkur hann til mín og slær mig.“

Kært til lögreglu

Sigurbjörn segir að árásin hafi komið honum í opna skjöldu og hann hafi ekki búist við högginu. Hann hafi hins vegar haldið ró sinni og haldið áfram að fara með parinu um geymslur og kompur í leit að þeim eigum sem upp á vantaði enn. „Ég held að við höfum fundið megnið af því sem vantaði. Auðvitað vill maður að fólk fái eigur sínar og ef eitthvað vantar þá sagði ég þeim að það yrði bara að kæra það til lögreglu, eins og hvern annan þjófnað. Það gerist á heimavistarskólum að eitthvað á til að hverfa og ef við náum ekki að leysa málin innanhúss þá er það leiðin.“

Þrátt fyrir að Sigurbjörn vilji sem minnst gera út atvikinu var árásin engu að síður kærð til lögreglu enda var hann þarna í vinnunni sem skólameistari og annað ekki í boði. Hann telur að árásin hafi líklega ekki beinst að honum sem persónu heldur fremur því stöðu sem hann gegni.

Taldi sig vera í rétti

„Ég held að hann hafi bara talið sig hafa verið í rétti þarna. Annars vegar vegna þess að þarna hafi vantað hluti sem hann taldi sig eiga og við bærum ábyrgð á og hins vegar því hann var búinn að vara mig við því að þetta gæti gerst ef ákveðin atburðarás hæfist og sem síðan gerðist. Ekki það að ég er engan veginn sammála honum í því að hann hafi þarna verið í einhverjum rétti.“

Sigurbjörn ber sig annars vel og kveðst ekki hafa hlotið mikla áverka.
„Mér fannst þetta ekkert stórmál, þannig lagað. Og ég er alls ekki slasaður.“