Pólitíkin er skrítin tík

0
97

Rúv.is sagði frá því í gær að Sveitarstjórn Norðurþings leyfði að byggð yrði steypustöð á Húsavík þótt hvorki lægi fyrir byggingaleyfi né deiliskipulag. Ný steypustöð við Húsavík, sem meðal annars átti að sjá verktökum á Bakka og Þeistareykjum fyrir steypu, var inni í deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið á Bakka. Þegar í ljós kom að fyrirtækið, sem ætlaði að byggja þar, hætti við ákvað Steinsteypir ehf. að byggja steypustöð. Fyrirtækið vildi hins vegar fá lóð sunnan við Húsavík, en Bakki er norðan við bæinn og færði fyrir því ýmis rök sem sveitarstjórn tók gild. Fyrirtækið Steinsteypir er að stórum hluta í eigu fyrrverandi forseta sveitarstjórnar Norðurþings, Friðriks Sigurðssonar, sem gegndi því embætti þegar þessi afgreiðsla fór fram í sveitarstjórn.

Friðrik Sigurðsson
Friðrik Sigurðsson

 

Friðrik Sigurðsson fyrrverandi forseti sveitarstjórnar Norðurþings birti eftirfarandi skrif á Facebooksíðu sinni í morgun vegna fréttar rúv.is um málefni Steinsteypis og afgreiðslu sveitarstjórnar Norðurþings.

 

 

 

 

Las fréttir og fékk að vita það að úthlutun sveitarstjórnar á iðnaðarlóð á iðnaðarsvæði væri spilling! Í þokkabót hefðu allir fulltrúar í sveitarstjórn (nema ég sem vék af fundi) verið að gera mér persónulegan greiða með þessu.
Þeir sem þekkja mig vita að ég hef alltaf gætt mín á því að halda stjórnmálum og mínum rekstri aðskildum.
Ég kom ekki nærri samskiptum við fulltrúa sveitarfélagsins í aðdraganda lóðaúthlutunar, það bað ég félaga mína um, einmitt til þess að ekki væri hægt að væna okkur um spillingu! Það hefur samt verið íað að slíku og það særir mig að heyra slíkt.
Ég hef fengið margt á mig og miður skemmtilegt þau ár sem ég hef setið í sveitarstjórn en að ég sé tengdur spillingu hef ég aldrei fengið að heyra áður og að það sé sett fram eftir að ég er hættur í sveitarstjórn er ótrúlegt. Sorglegt og dapurlegt og þvert á allt sem ég tel mig hafa staðið fyrir í stjórnmálum.
Uppbygging á umræddri lóð hefur verið unnin af Trésmiðjunni Rein og mér vitandi í góðu samstarfi við byggingarfulltrúa.
Hjá Steinsteypi starfa í dag tæplega 20 manns, þeir voru 2 – 3 fyrir uppbyggingu.

Pólitík er skrítin tík.

 

Frétt rúv