Plastlaus september

0
209

Ég var að hlusta á útvarpið í dag 13. ágúst. Á þátt  um plastlausan september. Þar var rætt um hve mörg kíló meðal fjölskylda sendi til eyðingar af plasti og hvernig mætti minnka það. Mér varð litið út um gluggann. Á  heyrúllurnar sem því sem næst allir bændur eiga. Hve mörg kíló af plasti ætli meðalbóndi skili til eyðingar á ári? Eða fer þetta plast kannske ekki í eyðingu?

Ég var á ferðalagi um daginn og tók myndir af plasti í mónum og  plasti á girðingum. Sumar eru frá fjarlægum sveitum, aðrar úr grennd. Þarna er plast að fjúka útí veður og vind, að skila sér í drykkjarvatnið okkar eða í meltingarveg dýra. Nema það lendi  í sjóinn með næsta læk og reki upp á einhverja fjöruna.

Undanfarin sumur hefur bóndi minn varið fjölda dagsverka í að hreinsa rekann. Sandinn milli Laxár og Skjálfandafljóts. Hann kom með eina kerru í gær, eftir fjögurra tíma plokk við annan mann, en ekki þá fyrstu í sumar. Hann fór með þrjár troðnar  í fyrra í Stórutjarnir og líka í hittifyrra. Þetta er mest plast og nælon. Netadræsur, frá bátum, brúsar, flöskur og plastlufsur frá byggingariðnaði og landbúnaði, sem árnar bera fram.

Meðfylgjandi myndir eru af þessum afla og svo myndir frá ferðinni.

Góðir Íslendingar! Gerum átak í málunum.Takið plastið og netið af ónýtu rúllunum og eyðið og passið  að plastbrúsar séu ekki að fjúka og froðuplast. Það er líka  óþolandi algengt rusl.

Heyr fyrir plastlausum september.

Myndir.

Kveðja og hvatning.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir