PCC BakkiSilikon – Vaktstjórar í þjálfun í Noregi

23 starfsmenn hófu störf í gær

0
452

Öflug þjálfun starfsmanna PCC BakkiSilicon er mikilvægur liður í því að rekstur verksmiðjunnar gangi vel frá byrjun. Húsvíkingarnir Kristbjörn Þór Jónsson, Erla Torfadóttir, Hallur Þór Hallgrímsson og Ólafur Hafsteinn Kárason eru nú í þjálfun í Holla í Noregi.

Þau munu starfa sem vaktstjórar í framleiðslu og í verksmiðjunni í Holla fá þau að kynnast ofnum í rekstri og leysa úr hindrunum sem koma upp. Þau læra m.a. á töppun ofnanna sem og akstri skörungsbílsins svokallaða sem er notaður til að stuðla að góðri blöndun hráefna innan ofnsins. Að auki læra þau á rafskautin og hvernig er bætt á þau. Verksmiðjan í Holla er með samskonar búnaði og Kísilverið sem er nú á lokametrunum á Bakka.

Þessi þjálfun sem þau öðlast þarna er ómetanleg og mikil bót fyrir verksmiðjuna okkar og almenna verkferla innan hennar”. Segir í tilkynningu frá PCC Bakkisilikon, en ætlunin er að þau verði ytra í sjö vikur.

Mikið um að vera á Bakka

Yfir 560 manns eru nú við vinnu á framkvæmdasvæði PCC BakkaSilikon. Fyrstu íbúðarhúsin sem byggð eru af PCC Seaview Residences ehf. sem eru ætluð starfsfólki við Kíslilverið, eru að taka á sig mynd og nýlega var gufu hleypt á fyrri aflvél Þeistareykja.

Síðast en ekki síst var undirbúningur í gangi fyrir móttöku nýrra starfsmanna, en í gær hófu 23 nýjir starfsmenn sína vinnu hjá PCC BakkiSilicon og verða starfsmenn þá orðnir 60 talsins.

Þann 1. nóvember nk. bætast svo fleiri starfsmenn við.