Ósk Helgadóttir er nýr formaður Alþýðusambands Norðurlands

0
329

Tæplega 90 fulltrúar, frá öllum stéttarfélögum á Norðurlandi sátu 34. þing Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór á Illugastöðum í Fnjóskadal um helgina. Nýr formaður AN var kosin Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar – stéttarfélags. Með henni í stjórn eru Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, og Jón Ægir Ingólfsson, stjórnarmaður í Öldunni – stéttarfélagi. Varamenn í stjórn eru Agnes Einarsdóttir frá Framsýn – stéttarfélagi, Vigdís Elfa Þorgeirsdóttir frá Samstöðu og Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju. Frá þessu segir á vef Framsýnar-stéttarfélags

Ósk Helgadóttir
Ósk Helgadóttir

 

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, mætti á þingið og hélt góðan fyrirlestur um stöðuna í húsnæðismálum. Róbert Farestveit, hagfræðingur frá ASÍ, og Marinó G. Njálsson, master í verkfræði og aðgerðarannsóknum, héldu fyrirlestra þar sem þeir fjölluðu um spurninguna: Hefur fjölgun erlendra ferðamanna áhrif á vísitölu neysluverðs? Þá fjallaði Maríanna Traustadóttir, frá ASÍ, um Genfarskólann sem er félagsmálaskóli á vegum norrænu verkalýðshreyfingarinnar sem hefur það hlutverk að kynna starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar – ILO og árlegt vinnumálaþing sem haldið er í Genf í Sviss. Að erindum loknum fóru þingfulltrúar á Þeistareyki og skoðuðu framkvæmdir á svæðinu og fengu kynningu á fyrirtækinu, LNS Saga, sem er stærsti verktakinn á svæðinu.

 

Þingið tókst í alla staði mjög vel og voru þrjár ályktanir og ein áskorun samþykktar samhljóða á þinginu. Þessar ályktanir fjalla um húsnæðismál, ferðaþjónustu og vísitölu en í áskoruninni er gerð sú krafa til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að vinna bráðan bug á því ófremdarástandi sem er í síma- og netsambandi á svæði Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum.

Ályktarnar þrjár og áskorunina má lesa á vef Framsýnar-stéttarfélags.