Opið bréf til Íslendinga – taka tvö

0
105

Miðað við flóðgáttina sem minn fyrsti pistill opnaði þá sýnist mér að umræða um jafnréttismál frá öllum hliðum sé afar þörf. Ég vil taka það mjög skýrt fram að mín skrif eru með engu móti ætluð til að lítillækka einn eða neinn eða þá vinnu sem hefur verið unnin og er verið að vinna í þessum málum. Ég ber mikla virðingu fyrir öllu því frábæra hugsjónarfólki sem unnið hefur mikið og óeigingjarnt starf í þágu jafnréttis og vil þakka því sérstaklega af heilum hug. Til að fyrirbyggja misskilning þá vil ég líka taka það sérstaklega fram að ég er ekki að setja fram staðreyndir að neinu tagi nema það séu einmitt staðreyndir úr mínum eigin heimi og útskýring afhverju ég tel hann svona ágætan. Ég set aðallega fram spurningar sem brenna á mér og að mér sýnist fleirum í kringum mig.

Lilja Björk.
Lilja Björk Þuríðardóttir.

Í einni athugasemdinni við minn fyrri pistil spurði maður að því afhverju það væri ekki hægt að berjast gegn ofbeldi sem karlmenn verða fyrir líka, afhverju þyrfti að flokka ofbeldi svona niður. Honum var svarað af ágætri konu sem spurði á móti afhverju það þyrfti alltaf að berjast fyrir öllu. Sem er að mörgu leyti rétt en ég spyr mig og jafnvel ykkur sem lesa þetta líka, hvar er jafnréttið í því? Erum við ekki öll manneskjur? Er það ekki einmitt það sem jafnréttisbaráttan gengur út á? Ég tel mig ekki vera meiri eða minni manneskju en manninn við hliðina á mér.

Afhverju þarf að flokka okkur niður og sérstaklega af hópum sem eru að berjast fyrir jafnrétti?

Ein öndvegis kona talaði um það einmitt í athugasemdum við minn fyrri pistil að ég væri búin að vera mjög heppin yfir ævina. Ég veit svo sem ekki hvaða heimildir hún hefur fyrir því þar sem ég veit ekki til þess að hún þekki mig persónulega en ég get staðfest að ég tel mig hafa verið yfir heildina mjög heppna. Ég hef aftur á móti gengið í gegnum ýmiskonar erfiðleika, mun meiri en sumir sem ég þekki til á mínum aldri en svo aftur á móti minni en sumir aðrir sem ég þekki. Ég vil meina að ástæðan fyrir því að ég tel mig hafa það svona gott eins og raun ber vitni er að ég tekst á við mína erfiðleika og mín vandamál með mínum hætti, klára málið eftir bestu getu og svo stend ég upp mun sterkari á eftir og  held ég áfram að lifa mínu frábæra lífi.  Ekki svo að skilja að ég óski neinum neins ills.

Ég vil taka það mjög skýrt fram að með þessum orðum mínum er ég ekki að gera lítið úr þeim sem ekki hafa náð að vinna sig út úr sínum erfiðleikum, þar sem ég hef einmitt upplifað ýmisslegt (sem ég ætla ekkert að fara að telja upp hér, því að það í raun kemur ekki málinu við) þá geri ég mér fulla grein fyrir hvað það er í alvörunni erfitt að vinna sig út úr miklum erfiðleikum. Ég aftur á móti vildi einmitt hvetja fólk til að sjá það jákvæða og frábæra í sínu eigin lífi og reyna eftir fremsta megni að byggja á því. Ég til dæmis hef reynslu af ýmisskonar sérfræðingum sem ég hef talað við til að aðstoða mig við mína erfiðleika sem allir unnu sitt starf mjög vel, að mig minnir. En í rauninni var það sem hjálpaði mér mest sú meðvitaða ákvörðun hjá mér persónulega að neita að samþykkja það að vera fórnarlamb, neita að leyfa gerðum veikra einstaklinga að stjórna mínu lífi og neita að samþykkja það að ég sé minni manneskja af því að ég er kona. Ég nefnilega komst að því að ég get bara algjörlega gert það sem mig langar til að gera með mitt líf og geri það.

Þau skilaboð sem ég vildi koma til skila með þessum orðum eru að, ef ég sem er bara ósköp ómerkileg og venjuleg manneskja, ekkert minni eða meiri en neinn annar get unnið svona með stöðurnar sem ég hef lent í, þá ættu fleiri að geta það. Ég er ekki að segja að að það sé þér að kenna ef þér er nauðgað til dæmis og ég myndi aldrei halda því fram. En ef maður er svo óheppinn að lenda í svona ömurlegu ofbeldi sem ég er ekki að samþykkja á neinn hátt, þá er það einmitt manneskjan sem framkvæmir ofbeldið sem er veik og þarf að mínu mati á mikilli hjálp að halda. Veikindin eru ekki hjá þeim sem lenda fyrir því, sú manneskja þarf því ekki að vera fórnarlamb ofbeldis (sem mér finnst frekar niðrandi orð) heldur fer og berst fyrir sínu eins og hetjan sem hún eða hann er. Þessi orð eru alls ekki skrifuð með hroka eða yfirlæti í huga heldur von um að geta mögulega hvatt fólk til dáða og með því að horfa á það góða og jákvæða í sínum heimi, gæti hann hugsanlega orðið betri og jákvæðari.

Ég tel fólk yfir höfuð frábært, þó að það séu til veikir einstaklingar inn á milli, þá kýs ég að horfa á jákvæða og frábæra fólkið og þar af leiðandi hefur það yfirhöndina í mínum heimi. Einhver skrifaði í athugasemd að maður yrði nú að horfa á meira en bara sitt eigið umhverfi. Sem er algjörlega rétt og ég reyni eftir bestu getu að hjálpa þeim sem ég sé að þurfa á hjálp að halda. En neikvæða staðreyndin er sú að ég er bara ekki, hef aldrei verið og því miður mun aldrei verða ein af þessum frábæru hugsjónar manneskjum sem eru að vinna að betri heimi fyrir okkur öll. En ég reyni að horfa á það jákvæða í sjálfri mér og þá gengur mér betur og ég held að það sé það eina sem við þetta hugsjónarlausa fólk getum gert.

Það sorglega í þessu máli er hvað kvennréttindabaráttan er komin með neikvæðan stimpil á sig, allavega er það það sem ég heyri í kringum mig. Einhver talaði um að það sé einmitt öfgafólkið sem kemur hlutunum af stað sem er að vissu leyti rétt en þegar öfgarnar verða of miklar þá upplifum við þetta hugsjónarlausa fólk það sem væl og yfirgang, verðum leið á að hlusta og tökum minna mark á því sem talað er um, eða þannig upplifi ég það.  Mér sárnar umræðan og þá læt ég vita af því. Í jafnréttis þjóðfélagi tel ég að kyn ætti ekki að skipta máli að neinu leyti, það er mitt hugarfar.  Ég stend við það og mér finnst að fleiri mættu tileinka sér, en það er náttúrulega bara mín skoðun.

Ást og friður til allra.

Lilja Björk Lyngvöllum.

Opið bréf til íslendinga – 1