Opið bréf til íbúa Þingeyjarsveitar – Oddviti skrifar

0
135

Eins og fram kemur í bókun sveitarstjórnar frá 16. okt. s.l.  hefur sveitarstjórn samþykkt að ganga til samninga við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um að framkvæma skoðanakönnum meðal kosningabærra manna í sveitarfélaginu um fyrirkomulag grunnskólastigs Þingeyjarskóla. Þar með verður breyting á stefnu A listans um íbúakosningu eins og talað var um fyrir kosningar.

Arnór Benónýsson
Arnór Benónýsson

Ástæður fyrir þessari stefnubreytingu eru nokkrar og skulu þær tíundaðar hér.

 

Í kosningabaráttunni og í sumar hafa þær raddir heyrst að íbúakosningar, með því formi sem stefnt var að, standist ekki sveitarstjórnarlög eða í besta falli séu á gráu svæði hvað þau varðar.

 

Meirihluti sveitarstjórnar hlustar og leggur áherslu á að vanda til verka í jafn viðamiklu og viðkvæmu máli. Því var ákveðið að leita til Guðjóns Bragasonar sviðsstjóra lögræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er hans mat að íbúakosningar eins og fyrirhugaðar voru gætu skapað lögfræðilega óvissu eins og segir í bréfi frá honum:

 

„ Minn skilningur á 107. gr. sveitarstjórnarlaga er að íbúakosning nái til allra kosningarbærra íbúa sveitarfélagsins, þótt ég vilji ekki alveg útiloka aðrar útfærslur. Mér þykir við hæfi að minna á að ákvarðanir um breytingar á skólahaldi snúa ekki eingöngu að hagsmunum nemenda og foreldra þeirra, auk hagsmuna starfsfólks skólanna og t.d. verktaka sem sinna skólaakstri. Þessi mál snúast að jafnaði líka um fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins og þar með allra íbúa þess. Ef hugmyndin er sú að einungis hluti íbúa fái að taka þátt í íbúakosningu er því ákveðin hætta á því að einhverjir íbúar kæri slíka ákvörðun. […]mögulega myndi vönduð skoðanakönnun um málið leiða fram skýrari afstöðu til málsins heldur en íbúakosning. Í skoðanakönnun gæti líka verið betri möguleiki að greina afstöðu íbúa sveitarfélagsins eftir búsetu og væri líklega aðferðafræðilega ekkert því til fyrirstöðu að allir íbúar á ákveðnu aldursbili geti verið í úrtaki“

 

Eins átti oddviti fund með Ólafi Hjörleifssyni lögfræðingi í Innanríkisráðuneytinu og sjónarmið hans voru þau sömu og hjá Guðjóni.

Það er sannfæring fulltrúa meirihlutans í sveitarstjórn að versta hugsanlega niðurstaða í þessu máli væri að það yrði viðfangsefni lögfræðitúlkana og kærumála. Því finnst okkur rétt að hlíta ráðum þessara manna og efna til skoðanakönnunar í sveitarfélaginu.

Gengið er út frá því að þrátt fyrir að könnunin nái til allra kjörgengra íbúa sveitarfélagsins þá verði skilgreint hvert viðhorfið er á skólasvæði Þingeyjarskóla eins og stefnt var að með íbúakosningunni. Það var alltaf megin markmið að leita eftir sjónarmiðum íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla og verður það gert með þessum hætti.

Á fyrrnefndum sveitarstjórnarfundi var auk þess samþykkt að boða til íbúafundar 28. október n.k.  Á þeim fundi munu þeir Haraldur Líndal Haraldsson, Ingvar Sigurgeirsson og Bjarni Þór Ólafsson fylgja úr hlaði greinargerðum sem þeir hafa unnið um starfsemi Þingeyjarskóla og svara fyrirspurnum. Eins mun Guðjón Bragason lögfræðingur mæta á fundinn.

Í tengslum við fundinn verða greinagerðirnar aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins og hálfum mánuði síðar mun Félagsvísindastofnun framkvæma skoðanakönnunina í gegnum síma. Úrvinnslu könnunarinnar ætti að vera lokið í síðasta lagi um mánaðamótin nóvember desember og í framhaldi af því tekur sveitarstjórn ákvörðun um fyrirkomulag á starfi Þingeyjarskóla  frá og með næsta skólaári, það er frá 1. ágúst 2015.  Þetta er ferlið eins og það liggur fyrir og við væntum að meiri upplýsingar leiði til aukins skilnings og samstöðu í þessu viðkvæma máli.

Sveitarstjórn hefur ákveðið að þar sem verið er að framkvæma skoðanakönnun í sveitarfélaginu sé rétt að nota tækifærið og kanna hug íbúanna til ljósleiðaravæðingar. Því munu í könnuninni verða nokkrar spurningar sem tengjast lagningu ljósleiðara um sveitarfélagið.

Af því tilefni er rétt að upplýsa kosti þess að leggja ljósleiðar um sveitarfélagið.

Við könnumst flest við annmarka þeirra fjarskipta sem okkur er boðið uppá í dag. Okkur er t.d. ekki boðið uppá nema lítinn hluta þeirra sjónvarps- og útvarpsstöðva sem flestir landsmenn njóta, það mun gjörbreytast með tilkomu ljósleiðara sem og allar tölvutengingar og önnur vinnsla.  Ljósleiðari er besta mögulega nettenging sem völ er á og mun breyta verulega aðstæðum til atvinnuuppbyggingar og náms.

Með ósk um gott og málefnalegt samstarf í þessum stóru hagsmunamálum sveitarfélagsins

Fyrir hönd fulltrúa A-lista Arnór Benónýsson oddviti.