Önnur skriða féll í morgun við Ystafell

0
173

Önnur aurskriða féll í morgun úr hlíðinni norðan við bæinn Ystafell í Köldukinn í Suður Þingeyjarsýslu. Skriðan féll skammt frá útihúsunum á bænum. Skriðan er mun minni en sú sem féll í fyrrinótt. Sú lokaði veginum og ruddi niður skógi. Rúv.is segir frá þessu.

Skriðan frá því í morgun. Mynd: Ágúst Ólafsson
Skriðan frá því í morgun. Mynd: Ágúst Ólafsson.

Miklar drunur

Skriðan féll um klukkan hálf átta í morgun. Ólafur Ingólfsson, bóndi á bænum Hlíð sem er hinum meginn í dalnum – beint á móti Ystafelli, fylgdist með skriðunni falla. „Við horfðum á þetta í beinni útsendingu. Við heyrðum fyrst bara drunur og svo fór allt af stað.“

Ólafur segir að hávaðinn hafi verið mikill en skriðan hafi runnið hægt niður hlíðina. „Ég var búinn að hringja í lögregluna og var að spjalla við hann meðan þetta var og hann heyrði hávaðann í gegnum símann.“

Ólafur segir að skriðan sem féll í morgun sé talsvert minni en sú sem féll í gær. Hún sé líka blautari í sér. Skriðan fór yfir tún og skógræktarland en gömul tré sem plantað var fyrir áratugum síðan stóðu skriðuna af sér.

Mynd: Ágúst Ólafsson.
Mynd: Ágúst Ólafsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vegagerðin að störfum

Skriðan stöðvaðist í dokk við veginn og rann svo niður með honum að skriðunni sem féll í gær og þar fór að renna yfir veginn. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru á staðnum.

Ekki hafa fallið skriður úr þessari hlíð áður. Ólafur segir að landið hafi verið friðað fyrir um 18 árum og þar sé nú mun meiri gróður en áður. Hann geti safnað í sig vætu sem ef til vill sé ástæða þess að skriður falla þarna nú.

Ólafur segir að enn renni aur og bleyta niður farveg skriðunnar og enn heyrist drunur. „Það eru ótrúlega miklar drunur miðað við hvað það er lítið að gerast.“   ruv.is