Ólöf fékk viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

0
570

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór fram í Mývatnssveit í síðustu viku og óhætt er að segja að hún hafi verið frábær. Mývetningar tóku vel á móti sínum kollegum í ferðaþjónustu og farið var í heimsóknir í ýmis fyrirtæki á svæðinu, áður en boðið var upp á kvöldmat og skemmtun í Skjólbrekku, að því er segir á heimasíðu Markaðsstofu Norðurlands. Mývatnsstofa hélt utan um skipulagningu viðburðarins. Frá þessu segir á vef Skútustaðahrepps.

Venju samkvæmt voru þrjár viðurkenningar veittar, Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar.

Viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár er það Ólöf Hallgrímsdóttir sem hlýtur viðurkenninguna, en hún hefur undanfarin 18 ár sýnt og sannað að áhugi fólks á fjósum er ekki bara takmarkaður við mjólkurafurðir. Vogafjós í Mývatnssveit er nú með bestu veitingastöðum Norðurlands og þótt víðar væri leitað, og hefur haft mjög jákvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu í landshlutanum.

Ólöf hefur verið brautryðjandi í ferðaþjónustu lengi og svo sannarlega farið sínar eigin leiðir. Hún var snemma byrjuð að selja mat úr héraði og sagði í viðtali við fylgirit Morgunblaðsins árið 2007 að áherslan væri ekki á hamborgara og franskar, heldur rétti eins og hverabrauð með silungi úr Mývatni, hangikjöt og heimagerðan mozzarella- og fetaost. Sú áhersla hefur skilað því að Vogafjós er eitt af þekktari kennileitunum í umhverfi ferðaþjónustu í Mývatnssveit og raunar á Norðurlandi öllu. Auðvitað hefur hin sérstaka samþætting landbúnaðar og veitingareksturs þar einnig áhrif. Hugmyndin, að selja inn á kaffihús til að fylgjast með mjólkun kúa hefur eflaust þótt nokkuð galin á sínum tíma en hún hefur engu að síður slegið í gegn.

Það segir nokkuð um hve einstök hugmyndin um Vogafjós er að árið 2003 sá Vegagerðin sér ekki annað fært en að búa til sérstakt skilti fyrir ferðamannafjós, en þá var Vogafjós eini staðurinn á landinu þar sem hægt var að fylgjast með því sem fram fer í fjósi. Slík fjós voru reyndar ekki alveg óþekkt og höfðu bændur opnað fjósin fyrir ferðamönnum bæði í Eyjafirði og Laugarbakka undir Ingólfsfjalli, samkvæmt grein Morgunblaðsins um þjónustumerkið fyrir ferðamannafjós frá árinu 2003. Í Vogafjósi var hinsvegar, og er enn, hægt að fylgjast með mjöltum í gegnum gler og slíkt þótti þá nýstárlegt og snjallt. Ekki hefur verið sýnt fram á annað enn þann dag í dag, en að sú hugmynd sé snjöll!

Ólöf hefur sýnt af sér einstaka þrautseygju í baráttunni fyrir framleiðslu og sölu á mat beint frá býli. Hún hefur rutt brautina fyrir marga og sýnt fram á að með skýrri framtíðarsýn og stefnu má ná frábærum árangri. Hún hefur einnig sýnt gott fordæmi með því að veita þjónustu allt árið og þannig aukið viðskipti við ferðamenn á Norðurlandi auk þess að efla möguleika annarra fyrirtækja á heilsárs starfsemi.  Við óskum Ólöfu til hamingju með viðurkenninguna og óskum henni einnig velfarnaðar í störfum sínum um ókomin ár.