Ólík sýn

Bolli Pétur Bollason skrifar

0
687

Ég er alinn upp við trú á Guð og lífið. Það er ein af stærstu gjöfum sem ég hef þegið og hefur lagt grunn að tilvist minni. Þá dregur það ekki úr djúpstæðum áhrifum trúarinnar þegar æskuumhverfi er kyrrlátt og fallegt sveitaumhverfi þar sem hringrás lífs blasir við í svo mörgum myndum bæði hjá mönnum, málleysingjum og síbreytilegri náttúru. Ég ólst upp við slíkt og það eru forréttindi. Allt er það súrefni fyrir trú á Guð og lífið, að ekki sé nú talað um þegar fyrirmyndir eins og góðir foreldrar tjá trú sína á látlausan máta eins og ekkert sé eðlilegra.  Þannig er trúnni líka hvað best miðlað.

Fyrir mér er það eðlilegt að leggja saman hendur og biðja bænir, það er eins og að draga andann enda er bæninni jafnan lýst sem andardrætti trúarinnar. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig trúin er tjáð og hún kynnt t.a.m. fyrir ómótuðum einstaklingum, það er mjög vandmeðfarið.

Það veit ég að það er ekki eðli kristinnar trúar að þröngva sér upp á fólk og það verður í því sambandi aldrei hægt að skipa fólki að trúa, það hefur reyndar þveröfug áhrif. Við það fjarlægist fólk Guð fremur en hitt. Ég er því feginn og sérstaklega þakklátur að hafa ekki fengið þess konar brenglað trúaruppeldi.

Kristin trú birtist í eðli sínu í takt við það hvernig Jesús lifði, dó og lifir. Og hvernig þá, jú því finnst mér vera ljómandi vel lýst í óð Páls postula til kærleikans og mætti jafnvel setja nafn Jesú þar í stað kærleikshugtaksins?

„Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.  Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega. leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.  Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.”

Það er töluvert verkefni að tileinka sér þessar miklu dyggðir og lifa eftir þeim. Það er hverri manneskju torvelt og breytir þar engu hver hún er eða hvað hún gerir, öll getum við misstigið okkur á þeirri braut. Það sem gefur einkum byr í seglin þegar tekist er á við verkefni af slíkri stærðargráðu er sjálf trúin, fyrir mér skapar hún auðmýktina og lýkur upp þeim leyndardómum sem bæði líf og dauði fela í sér.

Þú lest lífið á annan hátt með gleraugum trúar heldur en án þeirra, það er ljóst. Þú lest t.d. Biblíuna á allt annan máta með gleraugum trúar á Guð. Ég aftengi mig þó trúnni með bölvuðum hrokanum haldi ég því fram að annar lesturinn sé betri en hinn. Það eina sem ég get haldið fram er að mér persónulega líður betur með að nota gleraugu trúar, og ég neyði þau ekki upp á nefið á neinn. Í þeirri þjónustu sem ég gegni segi ég fremur frá því hvað það er sem trúin gerir fyrir mig, hvernig hún varpar ljósi bæði á styrkleika mína og veikleika og hvernig hún verkar á heiminn að mínu mati.

Það er eðli málsins samkvæmt þannig að Guðstrú og Guðleysi eiga erfitt með að ná saman. Sterkir andstæðir pólar og sýnin svo gjörólík á tilganginn. Það eina sem hægt er að gera er að sætta sig við þá staðreynd og vera sammála um að vera ósammála, þannig bera þessar skoðanir virðingu fyrir hvor annarri eins og er með svo margt annað í lífinu. Það er samt sem áður sérlega áhugavert í þessu ljósi að lesa sögur þeirra sem hafa tekist á við Guðleysi en síðan fundið Guð og öfugt. Slíkar sögur fyrirfinnast í sjálfri Biblíunni og víðar. Nærtækast er að lesa þar sögu Páls postula, sem áður hét Sál, en tók upp Pálsnafnið er hann gerðist kristinn, hafði fyrir það ofsótt kristna menn. Af þannig frásögnum má margt læra, en þættir eins og áföll, fyrirmyndir, og lífsreynsla í sinni breiðustu mynd spila þar m.a. inn í.

Mér verður hugsað til þess, þó það sé orðin heldur slitin umræða, að ár eftir ár fyrir jól fer ákveðið órólegt spjall af stað um samstarf kirkju og skóla og hvernig skal standa að miðlun trúar til barna í almenna rýminu. Sú umræða hefur í mínum huga aldrei gengið út á það hvað börnunum er fyrir bestu, og þau sjálf hafa líka sjaldnast verið spurð mikið út í málið, heldur gengur hún í grunninn út á þennan ólíka veruleika og sýn hinna fullorðnu, þ.e. Guðstrú og Guðleysi.

Fullorðna fólkið er að takast á við þá djúpu gjá sem skilur á milli og þess vegna verður takmarkaður gangur í umræðunni og takmörkuð niðurstaða og síst sú að allir séu sáttir.  Þetta er eins og með hjón sem fara í sundur með ólíka sýn á hlutina, í þeirri sjálfhverfu sem gjarnan skapast undir álagi standa börnin einhvern veginn fyrir utan allt og uppgjörið snýst einkum um þarfir og réttindi og skoðanir foreldranna sem vilja fara í sitthvora áttina í stað þess að finna flöt á því hvernig hag barnanna sé best borgið.

Ég vil ekki halda því fram að Guðleysi sé það sem stendur Guðstrú fyrir þrifum og öfugt. Nei, það er helst það þegar trú á Guð og Guðleysið er afskræmt með breytni sem á sér stað í nafni málstaðarins. Öfgar í þessu samhengi varpa t.d. ávallt skugga á trú, hryðjuverk í nafni trúar og misnotkun hvers konar grefur undan því viðkvæma blómi sem trúin er.

Bandarísk hjón voru nýlega í fréttum, foreldrar þrettán barna. Þau héldu því fram að það væri vilji Guðs að þau eignuðust mörg börn. Það kom í ljós að börnin bjuggu við hræðilegar aðstæður á heimili sínu, voru þar beitt langvarandi ofbeldi af foreldrum sínum. Þetta er dæmi um afskræmingu trúar, þar sem fólk hefur hátt um trú sína til að öðlast traust umheimsins en síðan kemur í ljós að breytni þess er ekki í neinu samræmi við það sem það segist trúa á. Slíkur veruleiki gerir einstaklinga, sem eru að fást við trú á Guð, hæglega fráhverfari Guði en margt það annað sem býr í tilvistinni.

Ég hef satt best að segja velt tilvist Guðs fyrir mér þegar horft er til þeirrar illsku sem býr í heiminum, þegar fólk er jafnvel að vinna hin verstu myrkraverk í nafni trúar á Guð. Til að nálgast Guð, sem um stund getur fjarlægst þegar myrkrið hellist yfir, beini ég sjónum að Kristi og hugsa til þeirrar sýnar á lífið sem hann hefur kynnt fyrir mér og framkvæmt. Við það vill trúin eflast á ný og áhersla illskunnar fjarlægist sem umhverfi okkar eins og t.d. fjölmiðlar nútímans birta okkur með áleitnum hætti á degi hverjum.

Það er veik trú sem stýrist af myrkraverkum annarra, trúin er gjöf sem við hvert og eitt ræktum innra með okkur og er til þess að bæta okkur hvert og eitt sem manneskjur þannig að við getum gert heiminn að betri og ákjósanlegri stað til búsetu. Það er enginn sem segir þér að trúa á Guð eða trúa ekki á Hann, það finnur þú í hjarta þínu frá upphafi til enda, hjartað þitt er í því sambandi ekki bara vöðvi.

Það er margvíslegt í umhverfi þínu og hinum félagslega veruleika sem hefur óneitanlega áhrif á það hvernig trú þín þroskast og þróast. Allir hafa trú í einhverri mynd og þess vegna er síst hægt að tala um trúleysi, en það eiga ekki allir trú á Guð og þar með tölum við fremur um Guðleysi.

Þau eru holl eftirfarandi skilaboð úr Hebreabréfi Biblíunnar inn í heim sem á margan hátt reiðir sig á það sem maðurinn einn getur skapað og þar krafan til áþreifanleikans eykst fremur en hitt og á tímum þar sem fólk kallar engu að síður stöðugt eftir lífsfyllingu jafnvel þótt það hafi öll veraldleg gæði og á sífellt erfiðara með að átta sig á hvernig skal seðja hungur andans og hvernig skal vinna úr andlegri reynslu.

Þar segir: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. Fyrir trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum  velþóknun Guðs.  Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega.”

Bolli Pétur Bollason.