Ók út á tún til að komast leiðar sinnar.

0
146

Hrafn Sigurðsson mjólkurbílstjóri hjá MS á Akureyri lagði upp frá Akureyri í gærmorgun til þess að sækja mjólk í Bárðardal og Mývatnssveit. Hann fór fyrst í Bárðardal og þegar hann var skammt norðan við Halldórsstaði sá hann að mikil ísing var á raflínunni sem liggur þvert yfir veginn í áttina að Lundarbrekku og lafði hún í lítilli hæð fyrir ofan veginn. Hrafn gat þó ekið undir línuna.

Hrafn Sigurðsson mjólkurbílstjóri MS á Akureyri.

Hrafn sótti mjólkina í Halldórsstaði en þegar hann kom til baka að línunni hafði  staurinn, sem bar hana uppi, brotnað undan ísingunni og raflínan var það lág að ekki var hægt að aka undir hana á mjólkurbílnum.  Hrafn brá þá á það ráð, í samráði við Ingvar Ketilsson bónda á Halldórsstöðum 2, að aka upp á túnið ofna við veginn og freista þess að komast um túnið yfir á næsta tún og þaðan niður á veginn norðan við raflínuna. Þetta hafðist af enda mjólkurbíllinn ekki fullhlaðinn og túnið var ekki það blautt að bíllinn sökk ekki í það.

Hrafn ók þá sem leið lá áleiðis í Mývatnsveit en komst bara skammt suður fyrir Brún í Reykjadal. Þar bilaði mjólkurbíllinn og þar sem komið var brjálað verður, var bíllinn skilinn eftir og fékk Hrafn gistingu á Brún í nótt.

Í dag tókst svo að gera við bílinn og gat Hrafn sótt mjólk á bæi í Mývatnssveit og Reykjadal síðdegis í dag.

Hrafn er væntanlegur til Akureyrar síðdegis í dag, sólarhring seinna en venjulega.