Og enn er svarað

0
555

Sæl félagi Örn, leitt að heyra að þú sért ekki ánægður með öll svörin sem þú hefur fengið frá meirihlutanum að undanförnu. En verð að játa að ég átti svo sem ekki von á því.

Verra þykir mér þegar þú segir mig ljúga.

Svar okkar um kostnað við húsnæði Þingeyjarskóla við sameiningu tveggja starfsstöðva í eina stendur. Á árunum 2015 og 2016 var eignfært vegna breytinga 49.139.206 krónur og á sömu árum voru gjaldfærðar á rekstur, vegna almenns viðhalds, krónur 30.364.704.   Hægt er að fá staðfestingu á þessum tölum á skrifstofu og hjá endurskoðanda sveitarfélagsins.

Hins vegar þykir mér ábyrgðarhluti að kasta fram tölu eins og tvöhundruð milljónum í þessa umræðu og skora á þig að upplýsa hvaðan sú tala er kominn. Í því samhengi er rétt að komi hér fram að starfsfólk á skrifstofu sveitarfélagsins kannast ekki við að þú hafir leitað þangað eftir upplýsingum og verið bent á að skoða ársreikninginn.

Heildarlaun sveitarstjóra eru í samræmi við kjör þeirra almennt í sveitarfélögum á landinu enda erum við í samkeppni við þau um gott fólk. Og ef ég skoða launin í samhengi við vinnuframlag og hæfni sveitarstjóra finnst mér ekki of mikið í lagt.

Já, starfsmenn sveitarfélagsins eru margir en hefur farið fækkandi og taka þeir laun samkvæmt kjarasamningum. Á bls. 12 í ársreikningi 2016 kemur fram að stöðugildin séu að meðaltali 66 og laun og launatengd gjöld 534 milljónir. Samkvæmt ársreikningi 2015 voru stöðugildin að meðaltali 72 og laun og launatengd gjöld 581 milljón (bls. 11).

Hvað Iðjugerði varðar þá er það einu sinni svo að ákveðinn rekstrarkostnaður er til staðar þó engin starfsemi fari þar fram.

Kostnaður vegna Iðjugerðis sem gjaldfærður var á Aðalsjóð á árinu 2017 var eftirfarandi:

Húsaleiga gjaldfærð á skrifstofu 2.856.420
Húsaleiga – gjaldfærður styrkur til björgunarsveitar 1.746.168
Rafmagn 62.142
Hiti 446.202
Öryggiskerfi Securitas 129.919
Sími 464 3510 52.235
   
Samtals 2017 5.293.086

 

Eins og sést er leigan langstærsti hluti kostnaðarins. Leigan er tekjufærð á Eignasjóð sem á og rekur húsið. Sum ár rekur Eignasjóður húsið með hagnaði en önnur með tapi, fer mest eftir því hvort eitthvað er unnið í viðhaldi því viðhaldskostnaður er fljótur að hlaupa á milljónum ef eitthvað þarf að gera. Og öllum húsum þarf að halda við fyrr eða síðar. Þessi leiga er útreiknuð af endurskoðendum og er það sem Eignasjóður þarf að hafa í leigu til lengri tíma til að viðhalda eigninni þannig að verðmæti hennar haldist. Eflaust má deila um hvað er hæfileg leiga og einhverjir geta haft tilfinningu fyrir því að leigan ætti að vera einhver önnur en þetta. En við teljum réttara að nota tölur sem byggja á áratuga reynslu af rekstri húsnæðis frekar en tilfinningu.

Nú er svo komið að mér finnst þessi umræða komin á það tilfinningalega plan að hún eigi í raun betur heima í eldhúsi en á opinberum vettvangi. Kemur því hér amen eftir efninu eins og Séra Sigvaldi sagði um árið.

En senn vorar og þá verður gengið til sveitarstjórnaskosninga og þar mun A-listinn listi Samstöðu bjóða fram.

Hvet ég þig til að koma á kosningafundi og leggja þar fram spurningar sem á þér brenna. Eins hvet ég þig til að kynna þér kosningastefnu A-listans þegar hún kemur fram og leggja okkur síðan lið við að halda áfram að byggja betra og bjartara samfélag í Þingeyjarsveit.

Með vinsemd

Arnór Benónýsson