Nýtum íslenska orku í þágu þjóðarinnar

0
318

Það var okkur Þingeyingum og mörgum fleiri fagnaðarefni þegar PCC BakkiSilicon hf. afréð í fyrra að reisa kísilver á iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík. Langþráðu markmiði í atvinnumálum var náð. Gangi allar áætlanir eftir mun verksmiðjan hefja starfsemi á ofanverðu næsta ári. Búast má við að þegar mest verði, muni um 450 manns starfa við byggingu kísilversins en byggingarkostnaður er talinn muni nema um 40 milljörðum króna. Þegar verksmiðjan verður komin á fulla ferð, munu störf og afleidd störf skipta hundruðum.

Hermann Aðalsteinsson
Hermann Aðalsteinsson

 

Stærsta breytingin

Við sem eigum leið um Húsavík og Bakkasvæðið, komumst ekki hjá því að skynja breytingarnar. Þá á ég ekki einungis við áþreifanlegu breytingarnar á hafnarsvæðinu, dýpkunina, lengingu viðlegukantsins og uppfyllinguna með efni úr göngunum. Ekki heldur bara við jarðvegsvinnuna og uppbygginguna á Bakka. Mestu breytingarnar skynjar maður nefnilega á fólkinu sjálfu. Upplifir hvernig framkvæmdagleðin hefur smitað út frá sér og speglast í andlitum þess. Sér hvernig vonin um bjartari framtíð gerir bæjarbúa og nærsveitunga upplitsdjarfari og jákvæðari gagnvart sínum eigin framtíðarmöguleikum.

 

Fyrir utan frumkvæði erlenda félagsins með tilheyrandi verk- og rekstrarþekkingu og aðkomu ríkis og fjármálastofnana, skiptir aðgangur að nægri orku höfðumáli. Næg orka og góð hafnaraðstaða eru frumforsendur þessa stóra atvinnutækifæris. Og við Íslendingar þurfum að skapa og nýta fleiri slík tækifæri á landsbyggðinni.

Sæstrengs hugmyndir 

Hagsmunaðilar hafa að undanförnu kannað hagkvæmni þess að selja raforku til Bretlands í gegnum sæstreng og hafa þessi áform verið mikið í umræðunni. Sumir telja að í þessu felist gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga því að hátt verð fáist fyrir raforkuna á Bretlandseyjum. Á vef Landsvirkjunar segir ma. að ef ákveðið verður að ráðast í verkefnið, muni það taka um það bil fimm ár að framleiða og leggja strenginn, reisa landsstöðvar, háspennulínur og fleira. Rekstur gæti því í fyrsta lagi hafist í upphafi næsta áratugar, verði af áformunum.

Hærra raforkuverð, fjárhagsleg áhætta, fleiri virkjanir og töpuð störf

Í skoðanakönnun sem Gallup gerði sl. sumar kom fram að 67% þeirra Íslendinga sem tóku afstöðu eru á móti lagningu raforkusæstrengs til Bretlands. Það voru aðallega fjögur atriði sem fólk nefndi sem væri neikvætt við lagningu sæstrengs

  • Raforkusala um sæstreng til Bretlands (og þar með Evrópu) myndi leiða af sér hærra raforkuverð til íslenskra heimila. Talið er líklegt að verðið myndi hækka um amk. 40% vegna þess að þá tengist Ísland við orkumarkaðinn í Evrópu og þar er orkuverð mun hærra en hér heima.
  • Byggja þyrfti nýjar virkjanir með a.m.k. 400 MW uppsettu afli samtals bara til þess að selja rafmagnið til Bretlands. Mun hærri tölur hafa reyndar verið nefndar í þessu sambandi. Til samanburðar er afl Kárahnjúkavirkjunar 690 MW. Bygging slíkra virkjanna myndi óhjákvæmlega hafa áhrif á umhverfið.
  • Ljóst er að umfang verksins er gríðarlega kostnaðarsamt og áhættan mikil vegna smæðar íslenska hagkerfisins.
  • Síðast en ekki síst tapast störf á því að flytja rafmagnið óunnið út þar sem það rafmagn nýtist ekki innanlands til að skapa störf í hinum ýmsu atvinnugreinum.

Við erum hvorki nýlenda Breta né nokkurrar annarrar þjóðar og við eigum að mínu mati að forðast að flytja út óunna vöru. Þar skiptir ekki máli hvort við erum að tala um fisk, rafmagn eða aðra „hrávöru“. Mestur virðisauki fæst með því að fullvinna vöruna hér heima áður en hún er flutt út og skapa þar með störf um leið.

Á hvaða vegferð erum við?

Að þessu sögðu botna ég lítið í þeim framámönnum fyrir sunnan sem klifa sífellt á lagningu raforkusæstrengs til Bretlands sem stórkostlegu viðskiptatækifæri. Ég sé nefnilega ekkert stórkostlega spennandi við að sturta íslenskum atvinnutækifærum úr landi í gegnum sæstreng og hækka raforkuverð til íslenskra heimila í leiðinni. Gleymum því aldrei að rafmagnið er sameign þjóðarinnar og það er ekki í verkahring einhverra skrifstofumanna í Reykjavík að leika sér með það fjöregg.

Þess vegna segi ég við þessa háu herra: „Við Íslendingar höfum ekkert við rafmagnssamband við Breta að gera. Þið þurfið hins vegar að komast í talsamband við okkur á landsbyggðinni.“

Hermann Aðalsteinsson, ritstjóri.