Nýtt orgel vígt í Hálskirkju

0
456

Í dag fór fram orgelvígsla í Hálskirkju í Fnjóskadal og svo var kirkjugestum boðið í messukaffi á eftir í Skógum. Mæting var fín og stemmning góð á fögrum froststilludegi.

Sr. Bolli Pétur Bollason flutti meðfylgjandi hugvekju við stundina sem ber yfirskriftina forvitni.

Forvitni

Það sætir tíðindum þegar fólk verður 100 ára. Um daginn var viðtal í Akureyri Vikublað við hana Jóhönnu Jónasdóttur á Skagaströnd sem náði þeim áfanga og aldri. Margt merkilegt kom fram í máli hennar, fyrir það fyrsta naut hún þess heiðurs í lífinu að vera tengdadóttir skáldkonunnar Guðrúnar frá Lundi og bjó með manni sínum Angantý Jónssyni hjá tengdaforeldrum um skeið.

Sagði hún tengdamóður sína hafa verið sískrifandi sem fór reyndar í taugarnar á manni hennar er vildi fá matinn á tilsettum tíma og fleira í þeim dúr sem var í takt við þann tíðaranda sem þá ríkti.

Jóhanna var að sjálfsögðu spurð um lykilinn að langlífinu og hún minntist á hollan mat í því samhengi t.d. soðna ýsu þó hún hafi ætíð kunnað vel að meta reykt kjöt sem þykir víst ekki hollt.  Hún var andsnúin öllu áfengi en reykti sígarettur um tíma sem hún ætlaði víst aldrei að gera aftur.

Þá var hún innt eftir því hvernig hún liti á dauðann og hvort hún kviði honum. Nei var svarið og svo bætti hún því við af hverju hún ætti að kvíða honum. Ég tek undir með Jóhönnu þarna að því leytinu til að svona stórum spurningum á maður helst að svara með spurningum.

En svo spyr ég sjálfur hvað það sé sem fær mig til að draga fram þetta viðtal hér í Hálskirkju í dag og vitna í hana Jóhönnu sem hefur náð tíræðisaldri.

Jú, hún sagði að það mikilvægasta í lífinu væri forvitni. Dætur hennar vildu þó leiðrétta gömlu konuna og sögðu það fremur fróðleiksfýsn, en mér er sama, fróðleiksfýsn má vera fágaðra orð, en það að vera forvitnilegur er t.d. að vera fýsilegur að kynnast.

Ég er að mörgu leyti sammála Jóhönnu þarna og hún fékk mig til að hugsa. Er ég nægilega forvitinn, ert þú nægilega forvitinn? Erum við t.a.m. nægilega dugleg að spyrja.

Ég nefndi það við fermingarhópinn um daginn í fermingarfræðslunni að lykillinn að svo mörgu í lífinu væri að spyrja spurninga og afla sér upplýsinga og vinna úr þeim þannig að það komi okkur að gagni, náunga okkar og umhverfi.

Það er svo oft þannig að ef fólk nennir ekki að afla sér upplýsinga eða spyrja spurninga og beina þeim spurningum á rétta staði að þá fer það að geta í eyður, túlka veruleikann út frá sínum fyrirframgefnu skilgreiningum án þess að hafa í raun kynnt sér málin hvernig þeim er háttað í raun og veru.

Ég verð m.a. var við þetta hvað kirkjustofnuna snertir, að þau sem vilja ekki vera hluti af því samfélagi, vilja standa utan við það, hafa oftar en ekki mjög sterkar skoðanir á því og þar verður maður sjaldnast var við einhverjar spurningar heldur einkum staðhæfingar sem eiga sér jafnvel enga stoð, vegna þess að þær eru byggðar á fyrirframgefnum skilgreiningum og túlkunum en síður, eðli málsins samkvæmt, beinni reynslu af fyrrnefndu samfélagi.

Og þetta á við um svo mörg önnur svið tilverunnar og þrátt fyrir að við lifum á tímum þar sem er orðið mun einfaldara að sækja sér upplýsingar og svör við hinum og þessum spurningum, þú skrifar t.d. bara Guðrún frá Lundi í reit á Google og færð allar upplýsingar um feril hennar, þá virðist það ekki skipta öllu máli, túlkanir halda áfram og verða jafnmismunandi eins og við erum mörg og veruleikinn heldur áfram að vera flókinn.

Túlkanir eru meira að segja orðnar háværari í dag því samskipti fara í ríkara mæli fram í texta á netinu m.a. í gegnum samfélagsmiðla.

Úr Hálskirkju

Það sem skrifað er kallar meira á túlkunarþörf heldur en þegar fólk hittist og talast við augliti til auglitis. Það er allt önnur upplifun að lesa texta á miðli eins og við vitum, heldur en að heyra manneskju fara með hann í samtali með áherslum og svipbrigðum. Þess vegna geta orðaskipti á netinu valdið meiri usla sem þau annars myndu ekki gera augliti til auglitis, þar er minni hætta á mistúlkun.

Þess vegna tek ég undir mikilvægi forvitninnar því hún krefst spurninga og löngunar til að afla upplýsinga sem auðvelda túlkanir á lífi og tilveru til muna. Svo er það stóra spurningin hvort þið túlkið þetta svona eins og ég?

Ég velti þessu auk þess fyrir mér út frá guðspjallinu í dag. Fátæk ekkja kemur inn í helgidóminn í Jerúsalem og leggur til samfélagsins tvo smápeninga á meðan auðmenn leggja til sand af seðlum.

Einhver hefði getað túlkað það sem svo að hún væri nirfill en auðmennirnir ótrúlega rausnarlegir og gjafmildir. En Jesús hafði fyrir því að kalla til lærisveina sína til þess að benda þeim sérstaklega á það að framlag ekkjunnar var í raun mun veglegra heldur en auðmannanna þar sem hún gaf af skorti sínum en þeir af allsnægtum sínum.

Dæmi um túlkun sem sett var fram af djúpri lífsvisku og næmi fyrir aðstæðum  vegna þess að Jesús gaf sér tíma til að ræða við þau sem voru að basla í samfélaginu, voru á jaðrinum, voru jafnvel útilokuð frá samfélaginu vegna stöðu sinnar, og þegar rætt er við fólk og það spurt um kjör þess hreint og beint verður túlkunin sanngjörn og réttlát og það er víst nokkuð sem við erum alltaf að kalla eftir leynt og ljóst, sanngirni og réttlæti.

Ég sé gjarna mikið dýrmæti í kirkjusamfélaginu því þar kemur fólk saman með mismunandi reynslu af lífinu, úr mismunandi jarðvegi, mismunandi fjölskyldum, í mismunandi stöðu, með mismunandi kjör, mismunandi túlkanir og viðhorf og horfist í augu undir þeim boðskap að það skiptir allt jafnmiklu máli, í augum Guðs er það allt jafndýrmætt og mikilvægt. Fátæka ekkjan er sannarlega langt frá því að vera eitthvað síðri eða minni en auðmaðurinn. Í samkeppnisandrúmslofti veraldarinnar veitir hið hógværa og kyrrláta kirkjusamfélag skjól og hvíld í þessu samhengi.

Þrátt fyrir að sumir séu að slá í gegn, séu að sigra heiminn, þá kallar hinn himneski boðskapur okkur niður á jörðina og bendir okkur á það að við erum bara manneskjur þegar öllu er á botninn hvolft, öll með okkar styrleika og veikleika og við erum hér til að rækta jörðina saman og hjálpa hvert öðru að vera til og trúa á hið góða í náunganum, trúa því að allt fari vel að lokum.

Jesús sagði þetta:

„Trúið á Guð.  Sannlega segi ég ykkur: Hver sem segir við fjall þetta:  Lyft þér upp og steyp þér í hafið, og efar ekki í hjarta sínu heldur trúir að svo fari sem hann mælir, þá gerist það.”

Og þetta er alltaf að gerast og gerist ekki síst með samtakamætti samfélagsins, þess samfélags sem er einhuga, sem hefur sama kærleika, einn hug, eina sál.

Kirkjusamfélagið minnir áþreifanlega á þetta, það kemur saman til að þakka og biðja, til að lofa Guð, sem merkir að þakka Guði, t.d. með lúðurhljómum, með hörpu og gígju og eins og gert er í dag með nýju hljóðfæri hér í Hálskirkju er styður við samsönginn og lofsönginn.

Þetta hljóðfæri er kannski ekki eins og Dómkirkjuorgel, en gerir í grunninn sama gagn, leggur áherslu á lofgjörðina, það er að lyfta upp boðskapnum um Jesú Krist sem lægði sjálfan sig á krossi en reis síðan upp svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilfít líf.  Það er kjarni málsins.

Og þó svo að vægi trúar, kærleika og vonar sé gríðarlegt í tilvistinni, lífsgildi sem líma í raun tilveruna saman, finnst mér alls ekki fjarri lagi að minna sömuleiðis á forvitnina eins og hún Jóhanna gerir í forvitnilegu viðtali. Þar höfum við konu sem er ekki fædd í gær.

Forvitni dregur til sín þekkingu og frekari upplýsingar, þekking afhjúpar fordóma, þekking bætir samskipti okkar hvort sem er við sjálfan Guð eða náunga okkar, forvitni býr til spurningar sem skapa innsæi, auðga trúna, vonina og kærleikann.

Megi svo verða í samfélaginu okkar hér í Laufásprestakalli sem í því samfélagi er við köllum veröld, Guð gefi að okkur lánist öllum að túlka veruleika okkar í jákvæða átt, að við komum t.a.m. auga á það þegar ákvarðanir eru teknar af heilum hug, af einlægri trú eins og birtist í gjöf ekkjunnar forðum því reyndin er sú að hún opinberar ljóslega fyrir okkar þegar aðrar hvatir liggja að baki.

Jesús sagði:

„Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum.”  Amen.

Guðspjall dagsins:  Eyrir ekkjunnar. Markús 12: 41-44

Skógar í Fnjóskadal