Nýtt fréttabréf Skútustaðahrepps komið út

0
147

Nýtt fréttabréf Skútustaðahrepps er komið út. Í fréttabréfinu er fjallað um það helsta sem er á döfinni hjá Skútustaðahrepp. Fréttabréfið sem Jón Óskar Pétursson sveitarstjóri Skútustaðahrepps, skrifar má lesa hér fyrir neðan.

Jón Óskar Pétursson
Jón Óskar Pétursson

 

Ágætu Mývetningar. Tíminn líður og haustið gengið í garð með allri sinni litadýrð hér í okkar fallegu sveit. Haustið er tími uppskerunnar þar sem bændur heimta fé af fjalli og ferðaþjónustuaðilar kasta mæðinni eftir annasama vertíð. Á undanförnum misserum hefur íbúum Skútustaðahrepps fjölgað nokkuð. Í lok árs 2014 voru íbúar Skútustaðahrepps 6% fleiri en í árslok 2013 og var það mesta hlutfallslega fjölgun íbúa í einu sveitarfélagi á Íslandi. Samkvæmt bráðabirgðatölum á fyrri helmingi ársins 2015 virðist þessi ánægjulega þróun halda áfram. Á vettvangi sveitarfélagsins er unnið að margvíslegum málum sem öll miða í þá átt að gera gott samfélag enn betra og búa eins vel að íbúum og framast er unnt innan þess fjárhagsramma sem okkur er skammtaður.

 

 

Starfsmannamál.

Nokkrar breytingar hafa orðið í starfsmannaliði sveitarfélagsins að undanförnu. Þann 1. september tók Ingibjörg Jónsdóttir við starfi leikskólastjóra af Þóru Ottósdóttur sem gengt hefur starfi leikskólastjóra frá 1976. Þóra mun áfram starfa við leikskólann sem deildarstjóri. Aðrar breytingar á leikskólanum eru að Lovísa Gestsdóttir og Freyja Kristín Leifsdóttir eru í veikindaleyfi og í þeirra stað eru komnar til starfa Hulda Björk Marteinsdóttir og Anna Guðmundsdóttir. Í grunnskólanum eru þær breytingar að Ingibjörg og Soffía Björnsdætur verða í fæðingarorlofi í vetur. Ragnheiður Grétardóttir kom til starfa að loku fæðingarorlofi. Jóhanna Jóhannesdóttir kennir íþróttir. Þá sjá Ragnheiður Grétarsdóttir og Ingunn Guðbjörnsdóttir um stuðningskennslu. Þá hefur Agatha Kuc látið af störfum við ræstingar á leikskóla og skrifstofu sveitarfélagsins og í hennar stað hefur verið ráðin Marge Neissar.

Framkvæmdir.

Á vegum sveitarfélagsins hafa ýmsar framkvæmdir verið í gangi. Í vor var haldið áfram endurnýjun hitaveitulagnar þegar kaflinn frá Óhappinu að Garði var endurnýjaður. Vertaki framkvæmdanna var Jón Ingi Hinriksson. Nú fer að sjá fyrir endan á endurnýjun hitaveitulagnar sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Aðeins er eftir að endurnýja lögnina frá Garði í Skútustaði. Endurnýjun lagnarinnar hefur lækkað bilanatiðni verulega og vonandi bætt þjónustu við notendur veitunnar. Framkvæmdir eru í fullum gangi við byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Reykhjahlíð. Framkvæmdin er á vegum fasteigna ríkisjóðs f.h Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Um bygginguna sér Trésmiðjan Rein. Áætluð verklok eru í maí 2016. Hafnar eru framkvæmdir við byggingu einbýlishúss við „nýju götuna“í Reykjahlíð auk gatnagerðar.Vakin er athygli á að lóðir eru lausar til úthlutunar. Nánari upplýsingar um lóðirnar og
ýmsar kostnaðartölur eru á heimasíðu sveitarfélagsins www.myv.is. Nánari upplýsingar veitir Bjarni Reykjalín Skipulags og byggingarfulltrúi. Þá var í sumar unnið að nokkrum endurbótum á lóð leikskólans Yls m.a með hellulögn og endurnýjun leiktækja. Þá var málað innanhúss. Um framkvæmdir sáu starfsmenn áhaldahúss sveitarfélagsins og Sæmundur Sigurðsson málari.

Sorpmál.

Mikilla breytinga er að vænta í sorphirðu hjá okkur á næstunni. Í júli s.l var gengið frá þróunarsamningi um sorphirðu við Gámaþjónustu Norðurlands (GÞN). Lögð verður áhersla á,flokkun úrgangs, heimili verðitunnuvædd, opnum gámasvæðum verðurlokað og byggður verðifullbúinn gámavöllur með móttöku og eftirliti. Þróunar-og undirbúningsvinna er í fullum gangi og síðar í haust verður haldinn íbúafundur og sendir út kynningarbæklingar þar sem gerð verður grein fyrir nýja fyrirkomulaginu. Lögð verður áhersla á að vinna þetta ferli í samvinnu við íbúa og mikilvægt að fá ykkur með í lið svo vel megi takast. GÞN sér nú alfarið um sorphirðuna í sveitarfélaginu og er með móttökustöð á Hlíðarvelli við Hlíðarfjallsveg á Akureyri. Þangað geta íbúar farið með sorp og annan úrgang m.a. dýrahræ. Ekki er lengur móttaka á Húsavík nema menn greiði sérstaklega fyrir það en þó er enn hægt losa sig við dýrahræ þar á vegum Skútustaðahrepps. Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit vinna saman að þessu verkefni og njóta þannig margvíslegra samlegðaráhrifa.

Þekkingarsetur í Mývatnssveit.

Uppbyggingasjóður Eyþings styrkti Skútustaðahrepp um 1 milljón króna vegna verkefnis sem snýr að könnun möguleika á að koma upp þekkingarsetri í Mývatnssveit. Gengið hefur verið frá samkomulagi við Þekkinganet Þingeyinga um að annast verkefnið í samvinnu við starfshóp sem skipaður er af sveitarstjórn.

Nafnamál

Nokkur umræðahefurverið undanfarið um nafngiftir á nýju götunni í Reykjahlíðarþorpi og nýja náttúruvættinu norðan Vatnajökuls. Varðandi götunafnið þá hefur sveitarstjórn falið Skipulagsnefnd að koma með tillögu að nafni og ætti það að liggja fyrir á næstu vikum. Varðandi náttúruvættið þá er þessa dagana nefnd að störfum skipuð fulltrúum sveitarstjórnar, Vatnajökulsþjóðgarðs, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og nafnfræðissviðs Stofnunar Árna Magnússonar, sem gera mun tillögu að nafni til sveitarstjórnar sem taka mun lokaákvörðun. Nefndin mun skila tillögum fyrir 10. október n.k.

Húsnæðismál leikskólans Yls.

Sú jákvæða þróun hefur átt sér stað að börnum á leikskólaaldri hefur fjölgað verulega á undanförnum misserum hér í sveitinni. Fyrir liggur að núverandi húsnæði leikskólans rúmar ekki þá eftirspurn sem er til staðar eftir leikskólaplássi. Unnið er að því að leysa þetta jákvæða „vandamál“ og er það markmið sveitarstjórnar að gera eins vel við barnafjölskyldur og framast er unnt.

Mývatnssveit 1. október 2015 Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri.

 

Sjá eldri fréttabréf hér

Skrá með endinguna pdf 2. fréttabréf 29. apríl 2015 (28,12 KB 29.4.2015)
Skrá með endinguna pdf 1. fréttabréf 3. nóv. 2014 (216,50 KB 3.11.2014)