Nýtt fjós tekið í notkun á Litlu-Reykjum

0
597

Um helgina var nýtt lausagöngufjós tekið í notkun á bænum Litlu-Reykjum í Reykjahverfi. Það eru hjónin Esther Björk Tryggvadóttir og Þráinn Ómar Sigtryggsson sem standa að fjósbyggingunni ásamt syni sínum Valþóri Frey Þráinssyni og konu hans Signý Valdimarsdóttur.Einnig starfa þau, Hilmar Kári Þráinsson og Karen Ósk Halldórsdóttir, við búið í öllum sínum frístundum. Kýrnar voru settar inn í nýja fjósið á laugardag og leit tíðindamaður 641.is við á Litlu-Reykjum af því tilefni.

2009-08-04 20.04.53
Nýja fjósið á Litlu-Reykjum

 

Fjósið er með 56 legubásum og með mjaltabás sem er búinn 6 mjaltatækjum og er hann af Alfa-Laval Tandrum gerð. Húsið er 593 fermetrar að stærð og kemur frá Haraldi S Árnasyni á Akureyri og er yleinagahús, mjög svipaðar gerðar og mörg útihús sem hafa verið byggð í Þingeyjarsýslu undanfarin ár. Haughús er undir því öllu. Byrjað var að reisa sjálft fjósið í maí sl. og gekk það verk ágætlega en nokkuð löng bið varð á því að mænisgluggarnir skiluðu sér. Nokkuð mörg fjárhús og skemmur ýmisskonar hafa verið byggðar eða eru í smíðum undanfarin ár í Þingeyjarsýslu, en nokkur ár eru liðin síðan nýtt fjós hefur verið byggt í sýslunni. Það var trésmiðjan Rein í Reykjahverfi sem annaðist fjósbygginguna ásamt heimilisfólkinu á Litlu-Reykjum.

Valþór Litlu-Reykjum
Valþór Freyr Þráinsson við mjaltir í morgun: Mynd: Esther Björk Tryggvadóttir.

 

Mjaltabásinn var keyptur notaður og einnig bása innréttingarnar og básamottur. Tveir kjarnfóðurbásar eru í fjósinu og voru þeir líka keyptir notaðir. Aðstaða er fyrir kálfauppeldi og stíur fyrir kvígur í fjósinu en allar innrétttingar í þeim hluta smíðuðu þeir bræður Valþór Freyr og Hilmar Kári á staðnum og var Hilmar að leggja lokahendur á þær smíðar þegar 641.is bar að garði. Stefnt er að því að breyta gamla fjósinu á Litlu-Reykjum í aðstöðu fyrir geldneyti og gera aðstöðuna liðléttingsfæra, með tíð og tíma.

2009-08-04 20.22.03
Esther og Þráinn á Litlu-Reykjum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Byrjað var á fjósbyggingunni 4 október 2012 þegar tekið var fyrir grunninum og til stóð að fjósið yrði tilbúið til notkunar mun fyrr en raunin varð. Verkið gekk hægt til að byrja með vegna mikilla snjóa sl. haust og vetur. Sem dæmi um það þurfti þrisvar sinnum að moka og bræða burt snjó úr haughúsgrunninum til þess að hægt væri að klára að steypa grunninn og svo að steypa upp haughúsið í kjölfarið. sl. vetur. En þar sem þau búa við hliðina á Hveravöllum nýttu þau sér það að sækja heitt affallsvatn þangað til þess að flýta fyrir bráðnuninni. Þau áætla að mörg hundruðþúsund líturm af heitu vatni hafi verið ekið í grunninn til þess eins að bræða burt snjó úr honum.

2009-08-04 20.29.47
Hilmar Kári að ganga frá kálfastíunum sl. föstudag.

 

Í dag eru 37 mjólkurkýr á Litlu-Reykjum og er stefnt á að fylla fjósið með tíð og tíma. “Þetta hefur gengið óskaplega hægt og verið erfitt á margan hátt. En nú sjáum við fyrir endan á þessu og við erum afskaplega glöð með það” sagði Esther Björk Tryggvadóttir í spjalli við 641.is.

2009-08-04 20.23.32
Mjaltabásinn.
Legubásar.
Legubásar.