Nytjasmiðja opnar um áramótin

0
160

Hlutafélagið Kjarni ehf er vel á veg komið með að koma upp vottaðri aðstöðu á Laugum til vöruþróunar og framleiðslu á matvælum í sérstakri nytjasmiðju. Í þessu skyni hefur verið keypt húsnæði á Laugum, sem áður var rafmagnsverkstæði, vegna starfseminar. Ætlunin er að leigja  væntanlegum matvælaframleiðendum aðstöðuna eftir því sem þeir hafa þörf fyrir. Í vikunni hófust framkæmdir við að breyta og bæta aðstöðuna en áætlanir gera ráð fyrir að nytjasmiðjan verði tekin formlega í notkun um áramót.

Húsnæði Nytjasmiðjunnar á Laugum.
Húsnæði Nytjasmiðjunnar á Laugum.

Nytjasmiðjan er ætluð þeim sem hafa góðar hugmyndir um  heimavinnslu á landbúnaðarafurðum ýmiskonar í héraðinu til virðisauka fyrir þá,  en vantar vottaðað aðstöðu til vöruþróunar. Mjög dýrt er fyrir hvern og einn að koma sér upp vottaðri aðstöðu og því er nytjasmiðjan vænlegur kostur fyrir þá til þess að prófa sig áfram við vöruþróun. Gangi verkefnin vel gæti það leitt til þess að notendur nytjasmiðjunnar komi sér sjálfir upp vottaðri aðstöðu til vinnslu afurðanna.

Náið samstarf verður við aðila með sérfræðiþekkingu á sviði matvælarannsókna og -þróunar og í því skyni hefur verið stofnað til samstarfs við Matís. Aðkoma Háskólans á Akureyri er einnig mikilvæg fyrir framgang verkefnisins. Hvort heldur um er að ræða rannsóknarstarf á vegum skólans, nemendaverkefni eða nýtingu á aðstöðu Kjarna til kennslu á vegum skólans.  Einnig eru uppi áform um að á staðnum verði lítil verslun þar sem notendur nytjasmiðjunnar geti selt sínar afurðir þegar fram líða stundir

Framkvæmdir hafnar í aðstöðu nytjasmiðjunnar. Mynd: Baldvin Áslaugsson.
Framkvæmdir hafnar í aðstöðu nytjasmiðjunnar. Mynd: Baldvin Áslaugsson.

Gert er ráð fyrir að til verði 2 hlutastörf er snúa beinlínis að rekstri Nytjasmiðjunnar. Um 30-50% starf staðarhaldara, umsjón með húsnæði og vélum ásamt þjónustu við þá framleiðendur sem þar vinna afurðir sínar. Þá er áætlað að til verði um 25% starf er lýtur að fjármálaumsýslu, áætlanagerð, markaðssetningu og samskiptum við samstarfsaðila. Samskonar nytjasmiðjur eru reknar á Höfn í Hornafirði og á Flúðum í Hrunamannahreppi og er forsvarsfólk Kjarna ehf búin að kynna sér starfsemina þar.

Nú þegar er búið að semja við einn aðila um leigu á aðstöðunni um leið og hún verður tilbúin og nokkrar fyrirspurninr um aðstöðuna hafa borist að sögn Baldurs Daníelssonar sem fer fyrir verkefninu.

Baldur Daníelsson kynnti áformin á fundi hjá Fundafélaginu í vikunni.
Baldur Daníelsson kynnti áformin á kynningarfundi í vikunni.