Nýr iPad leikur fyrir börn

0
455

Nýr leikur fyrir iPad er kominn í App Store sem byggður er á einum af leikjunum á hinum vinsæla, íslenska leikjavef Paxel123.com. Leikurinn í nýja Appinu heitir Pattern Puzzle Game og er skemmtilegur námsleikur fyrir börn, fjögurra ára og eldri. Leikurinn er hannaður af leikskólastjóra og þróaður í samstarfi við börn. Hann er ætlaður börnum á aldrinum 4-8 ára. Samkvæmt vefnum AppAnnie.com er Pattern Puzzle Game í 4. sæti yfir mest seldi iPad-leikina fyrir börn á Íslandi í dag, 10. desember. Leikurinn hefur líka fengið góða umsögn á danska vefnum Skoleapps.com, sem er sérhæfður vefur sem fjallar um námsleiki.

Skjáskot úr leiknum.
Skjáskot úr leiknum.

Pattern Puzzle Game byggist á því að búa til mynd eftir forskrift úr formum. Mismunandi erfiðleikastig eru á leiknum, hvert með tíu myndum. Á einfaldasta stigi er aðeins unnið með ferninga en þegar ofar dregur bætast við hringir, þríhyrningar, sexhyrningar og fleira. Þegar krakkarnir hafa leyst hvert borð fá þau stjörnu í verðlaun og geta svo byrjað á nýju spili. Engar auglýsingar eru í leiknum og engir tenglar af neinu tagi sem dregið geta athygli barnanna að óæskilegu efni. Fljótlega bætist uppfærsla við leikinn með tveimur nýjum erfiðleikastigum þar sem börnin búa til eigin myndir.

Byggt á leik af Paxel123.com
Eins og fyrr sagði er Pattern Puzzle Game byggt á leiknum Mynstur á námsleikjavefnum Paxel123.com, sem Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri, hefur byggt upp og haldið úti í um það bil tvö ár en leikskólinn hefur stærðfræði og ritmál sem leiðarljós Þar eru nú ellefu leikir fyrir börn á níu tungumálum og tveir leikir til viðbótar eru væntanlegir fljótlega. Þeir leikir munu einnig verða forritaðir fyrir iPad. Allir leikirnir þar eru, eins og Pattern Puzzle Game, hannaðir af Önnu Margréti og byggðir á stærðfræði- og ritmálsvinnu hennar með leikskólabörnum í leikskólanum Nóaborg undanfarin 13 ár. Allt að 30.000 leikir eru spilaðir á vefnum í hverjum mánuði og er hann notaður við kennslu í leik- og grunnskólum, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í Danmörku, Noregi og víðar.

Paxel123.com var annar tveggja íslenskra vefja sem hlaut fyrstu verðlaun fyrir besta barnaefnið á netinu þann 5. febrúar 2013 í tilefni af Alþjóðlega netöryggisdeginum. Anna Margrét hefur átt náið samband við SAFT á Íslandi og er einn leikurinn á Paxel123.com helgaður því að auka vitund barna um netöryggi. Paxel123.com tekur nú þátt í evrópskri samkeppni um besta barnaefnið á netinu í Evrópu.

Paxel123.com vefurinn er ætlaður nemendum á leik- og grunnskólaaldri sem eru að stíga sín fyrstu skref í því að vinna með orð og hugtök tengd móðurmáli og stærðfræði. Leikirnir henta einnig sem ítarefni við sérkennslu þ.m.t. í vinnu með börnum af erlendum uppruna. Gerð vefsins hefur verið kostuð með styrkjum frá Nordplus, Menntamálaráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands og Barnavinafélaginu Sumargjöf, Þróunarsjóði námsgagna og Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar.

Aðgangur að Paxel123.com er og verður ókeypis, engar auglýsingar munu birtast þar, engrar skráningar er krafist og engum persónulegum upplýsingum er safnað um notendur. Þær tekjur sem fást af sölu Pattern Puzzle Game verða nýttar til að halda áfram að þróa og reka Paxel123.com.

Fréttatilkynning.